152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég er eiginlega alveg sjokkeruð yfir innkomu Framsóknarflokksins hér á síðustu mínútum. Það var augljóslega eftir drjúga fundarlotu þingflokks Framsóknarmanna að ákveðið var að tefla fram mjög svo kröftugum þingmanni, hv. þingkonu Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur, til að útskýra fyrir okkur að þetta væri stjórnsýsluákvörðun sem ætti að fara í stjórnsýslulega úttekt Ríkisendurskoðunar en ekki þá rannsókn sem nauðsynleg er á því hvort brot hafi verið framin við sölu á hlut íslensks almennings í Íslandsbanka. — Eruð þið að grínast í mér, frú forseti?

Hún klykkir út með því að segja að hana langi bara svo ótrúlega mikið að leggja til og styðja við það sem við höfum verið að tala um hér í dag — lesist: meiri hlutinn — að fara fyrst með málið til Ríkisendurskoðunar. Ég endurtek það sem hún sagði: Ef það er eitthvað sem kemur út úr því þá getum við farið (Forseti hringir.) í rannsóknarnefnd Alþingis.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég treysti þessum stjórnarmeirihluta ekki fyrir húshorn. Þau vilja gera allt til að þvælast (Forseti hringir.) fyrir því að hér verði framkvæmd alvörurannsókn.

(Forseti (DME): Ræðutíminn undir liðnum um fundarstjórn forseta er ein mínúta, ekki hátt í tvær mínútur, ein mínúta.)