152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:49]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér fannst atvikið hérna áðan svolítið kómískt. Við höfum mörg hér tekið til máls og fyrir þá sem ekki vita þá er það þannig að í fundarstjórn forseta getur hver ræðumaður talað tvisvar en ekki oftar. Stjórnarandstaðan var hér svo gott sem búin að tæma sinn rétt til að taka til máls í umræðunni og það er fyrst þá sem stjórnarliðar koma inn í þingsal. Þau hafa nánast ekki sést hérna allan eftirmiðdaginn. Þau koma fram með þessi ævintýralegu rök sem hér hafa verið hrakin svo vel þar sem þau líta einhvern veginn á Ríkisendurskoðun sem lægra stjórnvald og rannsóknarnefnd Alþingis sem einhvers konar áfrýjunardómstól. Þetta er lögfræðilegur skilningur stjórnarliða hérna, sem er bara svo ótrúlegt að það þarf varla einu sinni að tala um það.