152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Árið 2003 kom út kvikmyndin The Cooler með William H. Macy í hlutverki óheppins manns sem hafði það hlutverk í spilavítunum í Las Vegas, minnir mig, að setjast við hliðina á þeim sem gekk of vel við borðin og þar smitaðist óheppni karakters Williams H. Macys yfir á þá og þeir hættu að vinna. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru sumir hverjir í þessari stöðu núna, virðist vera. En The Cooler hét þessi kvikmynd og ég held að það séu akkúrat áhrifin sem verið er að reyna að ná fram með þessari röð hlutanna, það á að kæla málið með því að láta það fyrst velkjast um hjá Ríkisendurskoðun, með fullri virðingu fyrir þeirri góðu stofnun. Þetta snýst ekki um það. En svona kælingaráhrif sem stjórnarliðar sjá í því að fá þetta fyrst í rólegheitin þar inni í nokkra mánuði, jafnvel ár, áður en tekin verður umræða um að setja á laggirnar rannsóknarnefnd eru áhrifin (Forseti hringir.) sem verið er að leita eftir. Ég skora á ráðherra í ríkisstjórn að setja sig ekki í hlutverk Williams H. Macys í þessu máli. (Gripið fram í.)