152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta er mjög kunnugleg leikflétta, eins og fram hefur komið. Mig langar að rifja upp fyrirtæki ekkert ósvipað Bankasýslunni sem var í armslengd frá hæstv. fjármálaráðherra og hét Lindarhvoll. Lindarhvoli var falið að fara með sölu svokallaðrar stöðugleikaeigna sem ríkið fékk í fangið 2015, 2016. Þeirri sölu var allri lokið 2018 og fóru þá að berast fréttir af því að mögulega hefðu kaupendur, ýmsir vildarvinir, fengið ríkulegan afslátt þegar þeir festu kaup á eignunum. Ríkisendurskoðun fór yfir málið. Sú könnun hófst 2018 og skýrsla barst til Alþingis 2020 en í hana vantaði allar upplýsingar sökum bankaleyndar. Það tók tvö ár að vinna þessa skýrslu, en síðan eru liðin tvö ár (Forseti hringir.) þar sem staðið hefur yfir reiptog á milli ólíkra nefnda Alþingis, ólíkra lögmanna úti í bæ, ólíkra sjónarmiða varðandi það (Forseti hringir.) hvernig megi gera þessar upplýsingar aðgengilegar almenningi. (Forseti hringir.) Þótt ekki væri nema bara vegna Lindarhvols ætti hver heilvita maður að sjá að Ríkisendurskoðunarleiðin er ekkert annað en (Forseti hringir.) leið stjórnarliða til að þæfa málið í a.m.k. fjögur ár til að geta haldið áfram í þessu blessaða stjórnarsamstarfi sínu.