152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:59]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vona að það verði virt við mig að ég hef ekkert glænýtt fram að færa í þessari umræðu enda þarf það ekki. Málið er bara svo alvarlegt að ég er hér til að ítreka það að skipuð verði rannsóknarnefnd á vegum Alþingis. Það sem er áhugavert er að á þessum sólarhring frá því að hæstv. forsætisráðherra tilkynnti um tillögu sína um að vísa þessu til Ríkisendurskoðunar hefur málið orðið alvarlegra og alvarlegra og sífellt fleiri óveðursský hrannast upp á himni. Þeir þingmenn og þeir þingflokksformenn sem voru tilbúnir til þess að vísa þessu til rannsóknarnefndar Alþingis í gær þegar málið virtist ekki eins alvarlegt, eru ekki tilbúnir að gera það núna þegar það stefnir í katastrófu. Frú forseti verður að beita sér fyrir því að það verði gert hlé og kallaður saman þingflokksformannafundur.