152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í 3. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum stendur, um meginreglur við sölumeðferð:

„Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skal við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.“

Frú forseti. Í 249. gr. almennra hegningarlaga segir:

„Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“

Þetta er ákvæði um umboðssvik, frú forseti.

Frú forseti. Í lögum um ráðherraábyrgð segir:

„Ráðherra sá, er ábyrgð ber á embættisathöfn samkvæmt greinunum hér á undan, verður einnig sóttur til ábyrgðar fyrir athafnir undirmanna sinna, er byggjast á téðri embættisathöfn (Forseti hringir.) eða lúta að framkvæmd hennar, enda hafi þær verið fyrirskipaðar af ráðherra eða megi, eins og á stendur, teljast eðlilegar eða nauðsynlegar til framkvæmdar henni.“

Ég (Forseti hringir.) legg til enn einu sinni að við gerum nú hlé á þessum þingfundi og setjumst niður til þess að komast að samkomulagi (Forseti hringir.) um að hér verði sett á laggirnar rannsóknarnefnd Alþingis til rannsóknar á sölu á Íslandsbanka.

(Forseti (OH): Ég vil minna hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)