152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:03]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vildi bara árétta það að þegar upp koma ákveðin tilvik sem þarfnast einhverrar skoðunar eða rannsóknar getur Ríkisendurskoðun hentað mjög vel til ákveðinna verka. En þegar svona mál, eins og hér er undir núna og er til umræðu, þarf sterkari úrræði. Þá þurfum við rannsóknarnefnd Alþingis. Ég ætla aðeins að fara yfir það sem er sagt um rannsóknarnefnd Alþingis á vefnum:

„Rannsóknarnefnd eru fengnar ítarlegar heimildir til þess að afla upplýsinga, þ. á m. að taka við upplýsingum sem þagnarskylda er um og hvernig skuli haga meðferð þeirra og varðveislu. Sérstaklega er fjallað um réttarvernd uppljóstrara og um skilyrði þess að einstaklingur geti notið hennar. Þá eru ítarleg ákvæði um réttarstöðu þeirra sem koma fyrir rannsóknarnefnd, þar á meðal um rétt til þess að hafa með sér aðstoðarmann og um greiðslu kostnaðar af störfum hans.“

Það liggur fyrir að ramminn utan um starf rannsóknarnefndar er svo vel skilgreindur og hann er svo vel úthugsaður að hann hentar ákaflega vel um nákvæmlega þetta, enda var það þannig að þegar við rannsökuðum bankahrunið og þegar við fórum yfir söluna á Búnaðarbankanum, þá var nákvæmlega þetta gert.