152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ramminn utan um þessar bráðabirgðaheimildir í frumvarpinu er að það þurfi að vera brýn þörf og það þurfi ríkar ástæður að mæla með því að framkvæmdin fái bráðabirgðaheimild. Við gerum kannski oftast ráð fyrir því að þetta tengist einhvern veginn fjármunum, að þarna séu einhverjar stórar upphæðir undir. En ég held við getum alla vega sagt að þetta tengist einhvers konar skala, hvort sem hann er fjárhagslegur eða að jákvæð áhrif á samfélagið, eða hvað það er, séu það umfangsmikil, að það séu ástæðurnar sem eigi að nota til að réttlæta þetta. Þannig framkvæmdir spretta ekki fullskapaðar upp á stuttum tíma. Það er einhver aðdragandi að framkvæmd sem er það áhrifamikil að brýn þörf kallar á að reglum um umhverfismat verði vikið til hliðar til að hún komist á koppinn. Slík framkvæmd hefur örugglega verið að gerjast árum saman áður en hún komst á framkvæmdastig. Í því samhengi er náttúrlega fráleitt að fólk sem gætir hagsmuna náttúrunnar og almennings fái síðan bara eina viku til að bregðast við með formlegum hætti, sérstaklega þegar við lítum til þess að hagsmunaaðilinn, sem stendur að framkvæmdinni, er væntanlega með mannskap á fullum launum við að halda framkvæmdinni gangandi á meðan félagasamtökin, sem gæta hagsmuna almennings og náttúrunnar, eru oftar en ekki rekin af sjálfboðaliðum. Ef þau eru með starfsfólk þá eru þau vanfjármögnuð, undirmönnuð og aðstöðumunurinn er hrópandi. Ein vika fyrir fólk sem er kannski að vinna sínar umsagnir um kvöld og helgar — ég held að það geti aldrei staðist það viðmið Árósasáttmálans að þátttaka almennings sé raunveruleg.