152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að þetta sé mergurinn málsins: Við ættum ekki að þurfa að hafa einhverja hjáleið í lögum um mat á umhverfisáhrifum eða í því regluverki sem gildir um starfsleyfi eða framkvæmdaleyfi, regluverkið á að virka nógu vel og vera nógu skilvirkt til að skila góðri niðurstöðu á ásættanlegum tíma. Ég held að þarna mætist oft og tíðum hagsmunir bæði framkvæmdaraðila og þeirra sem standa vörð um hagsmuni náttúrunnar. Ef við getum einhvern veginn sniðið kerfið þannig að það virki hraðar en að útkoman sé vandaðri þá held ég að báðir græði. Þetta er dálítið umhugsunarefni af því að eins og þetta álit ESA blasir við mér þá er alls ekki talið æskilegt að vera með neinar hjáleiðir í þessu regluverki. Og í ljósi þess að lög um mat á umhverfisáhrifum tökum við í raun bara beinustu leið upp frá Evrópu, í gegnum EES-samninginn, þá held ég að við ættum að fara varlega í að sníða einhverjar séríslenskar lausnir sem snúast um að afkúpla þetta sameiginlega evrópska regluverk okkar. Ég vil meina að ef ekki væri fyrir EES-aðild Íslands þá hefðum við aldrei fengið einhver fúnkerandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Þetta eru einhver öflugustu lög í þágu náttúrunnar sem við eigum þó að ýmsar atlögur hafi verið gerðar að þeim og tennurnar dregnar úr þeim víða. Ég vil ekki vera þátttakandi hér á þingi í einni slíkri tilrauninni enn ef sá ótti minn reynist réttur í þessu máli.