152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:40]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir það sem hér kom fram í ræðu hv. þingmanns, reglur um mat á umhverfisáhrifum eru á meðal þess frábæra sem við höfum flutt inn frá Evrópu í gegnum EES-samninginn. Ég þakka hv. þingmanni fyrir býsna góða ræðu og vil kannski fá að bera undir hann hvort hann sé sammála því að það frumvarp sem hér er til umræðu geti beinlínis leitt til þess að framkvæmdaraðilar muni í auknum mæli skila inn ónýtu umhverfismati í trausti þess að leyfisveitendur veiti þeim leyfi til bráðabirgða án þess að framkvæmt hafi verið gilt umhverfismat. Mér fannst hv. þingmaður orða það ofboðslega vel þegar hann talaði um að verið væri að búa til varanlega hjáleið fram hjá reglum sem snúast um að verja náttúruna. Ég myndi gjarnan vilja fá að heyra aðeins betur frá hv. þingmanni um það hver langtímaáhrifin af þessu frumvarpi gætu orðið að hans mati.