152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[16:02]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það eru ýmsir meinbugir á því að láta það nægja að Ríkisendurskoðun rannsaki þetta mál. Hér hefur t.d. verið vitnað til þess hvernig Ríkisendurskoðun lagði blessun sína yfir bankasölu fyrir tveimur áratugum, sem reyndist svo þegar nánar var að gáð ekki hafa farið fram í samræmi við góða stjórnsýslu og viðskiptahætti. Þegar ég segi þetta er ég ekki að gera það til að kasta einhverri rýrð á Ríkisendurskoðun heldur til að árétta það að Ríkisendurskoðun hefur ekki sömu rannsóknarheimildir og rannsóknarnefndir á vegum Alþingis. Það er alveg á hreinu. Þess vegna vil ég bara segja það að jafnvel þótt Ríkisendurskoðun taki þetta mál til skoðunar er algerlega ljóst í mínum huga að það verður að skipa rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til að fara yfir þetta söluferli til þess að skapa traust. Það kemur ekkert annað til greina.