152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[16:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Já, við erum loksins að setjast á fund með hæstv. forseta Alþingis í þeirri von að stjórnarmeirihlutinn, ekki bara heyri það sem við segjum heldur skilji á hvaða forsendum við erum að krefjast þess að hér verði fagleg, ítarleg rannsókn á sölu ríkisstjórnarinnar á hlutum í Íslandsbanka. Það er svo kaldhæðnislegt að svona fagleg rannsókn sem verður að fara fram á þessum verknaði skuli vera í hlekkjum meiri hluta á þinginu, sem hugsar mögulega fyrst og fremst um ríkisstjórnina og stjórnarsamstarfið og að ekkert óþægilegt komi fyrir hjá þeim, en minna um almannahag. Það er eitthvað kaldhæðnislegt við það að við skulum vera föst í því, í þessum meirihlutavilja sem vill ekki rannsaka.