152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[16:08]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil koma hér og lýsa ánægju minni með að það sé að nást samkomulag um fund sem er búið að vera að óska eftir í allan dag. En mér þykir það skjóta skökku við að lýðræðislega kjörnir fulltrúar, sem við erum öll, skuli ekki hafa annað uppi í erminni en að djöflast hér í pontu í fundarstjórn til að fá fram einhverjar upplýsingar og einhverjar rannsóknir sem við teljum að þurfi að fara fram. Þetta er auðvitað bara algert gerræði. Við getum óskað eftir því í fjárlaganefnd; ef þrír leggja fram einhverja beiðni þá fer það í gang. En hér gerist bara ekki neitt af því að meiri hlutinn stjórnar því hvað á að skoða og um hvað á að ræða. Það er náttúrlega bara mjög sérstakt að reglur þingsins skuli vera með þessum hætti. Við eigum, þótt í stjórnarandstöðu séum, að hafa fullan rétt á því að óska eftir öllum þeim rannsóknum og öllum þeim upplýsingum sem við teljum að við þurfum að hafa til að geta tekið ákvarðanir í framhaldinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)