152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[16:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ríkisendurskoðandi er með frumkvæðisrétt, getur sjálfur hafið athugun á þeim atriðum sem hann telur að sé nauðsynlegt að skoða. Vandinn er sá að hann er ekkert svo rosalega vel fjármagnaður. Þrátt fyrir tilraunir okkar í minni hlutanum á þingi til að bæta það þá dagar svona fjármagn einhvern veginn uppi hjá meiri hlutanum, þannig að ríkisendurskoðandi hefur ekki nægt fjármagn til að sinna öllum frumkvæðisathugunum sem þar eru í boði. Þannig að það er margt sem fer undir vagninn þar.

Það sem ég hef áhyggjur af, forseti, ef Ríkisendurskoðun er einmitt með þennan frumkvæðisrétt að elta mál, er að ef ráðherra kemur og segir Ríkisendurskoðun að fara að skoða eitthvað sem ráðherra ber ábyrgð á líka, þá sé það dálítið búið að menga skoðun og frumkvæðisrétt Ríkisendurskoðunar. Ég hef áhyggjur af því. Ég geri ekki lítið úr því, ég held að Ríkisendurskoðun myndi vinna það faglega, en það er samt óneitanlega óþægilegt að ráðherra skipti sér af, því að Ríkisendurskoðun er hvort eð er með möguleika á að skoða þetta að eigin frumkvæði, bara ef fjármagnið væri til staðar.