152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Eftir fundarlotu með forseta og þingflokksformönnum stjórnarliða er enn einu sinni kominn pattstaða í þingið. Stjórnarliðar fallast ekki á einlæga ósk okkar um að sett verði af stað rannsóknarnefnd Alþingis til að fara ofan í saumana á sölu á hlut í Íslandsbanka. Við höfum lagt það til ítrekað vegna þess að rannsóknarnefnd Alþingis hefur samkvæmt lögum víðtækar heimildir til rannsóknar til að kalla eftir upplýsingum, til að veita fólki vernd sem gefur upplýsingar þrátt fyrir að hafa tekið þátt í ólögmætum löggerningi, getur skyldað fólk til að koma til skýrslugjafar o.s.frv. En nei, stjórnarliðar vilja frekar fara þá leið sem hæstv. fjármálaráðherra lagði til í gær og hæstv. forsætisráðherra tók undir, að hæstv. fjármálaráðherra fari sjálfur fram á að Ríkisendurskoðun skoði störf hans, tillögur hans, og hefur ríkisendurskoðandi fallist á það með þær takmörkuðu heimildir sem hann hefur til rannsóknar. Þetta var niðurstaða fundarins. Þetta eru gríðarleg vonbrigði, hæstv. forseti. (Forseti hringir.) Það eru vonbrigði að stjórnarliðar skuli ekki átta sig á alvarleika málsins. (Forseti hringir.) Ég verð að segja það og það hryggir mig að félagar okkar í Vinstri grænum skuli fara með í þennan leiðangur.