152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:21]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hér er sagt. Við vorum svo sannarlega að koma af fundi, við þingflokksformennirnir, þar sem við vorum að ræða þá umræðu sem hér hefur farið fram. Um hana vil ég segja að ég held að það sé augljóst af þeim orðum sem hér hafa verið látin falla og eins þeim fréttum og því sem við höfum heyrt og lesið í dag, og öllu vindur fram hratt og örugglega, að ekki ríkir traust um þetta mál. Ég held að það sé augljóst. Þær heimildir sem við höfum, og bæði þingið og einstaka ráðherrar geta nýtt, eru einmitt að fá til þess eftirlitsstofnun Alþingis sem er Ríkisendurskoðun. Það var m.a. rætt á þessum fundi, og ég svo sem kannski tók ekki rétt eftir svari við því, hvort það væri þá ekki hægt að tengja betur saman eftirlitsnefnd þingsins, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, með þessari vinnu ríkisendurskoðanda án þess að hafa áhrif á það hvernig hann vinnur með sínum sjálfstæðu vinnubrögðum. Ég fékk ekki svar við þeirri hugmynd að við nýtum tækifærið og tímann, að ríkisendurskoðandi fái að klára sína vinnu en samhliða sé unnið að því að reyna að móta hugmyndir (Forseti hringir.) um það hvernig rannsóknarskýrsla myndi líta út leiði ríkisendurskoðandi eða mat því samhliða í ljós að það þurfi að fara í þá vegferð. (Forseti hringir.) Og bara svo ég bæti því við, afsakaðu forseti, þá hef ég sagt það hér að ég tel mikilvægt að velta við öllum steinum í þessu máli, (Forseti hringir.) svo ég ítreki það. (Gripið fram í.)