152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:28]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Mig langar aðeins til að vísa til orða hv. þm. Orra Páls Jóhannssonar sem kom hérna áðan til að staðfesta það að stjórnarmeirihlutinn vill ekki fá almennilega úttekt á þessu máli. Í máli hans kom m.a. fram að leiði mat ríkisendurskoðanda til að ástæða sé til þess að fara nánar ofan í saumana þá sé hægt að gera það en mig langar að spyrja: Hvað ef hún gerir það ekki, líkt og rannsókn Ríkisendurskoðunar gerði árin 2003 og 2006? Þá tek ég undir með öðrum sem hér hafa sagt að hér er ekki kastað neinni rýrð á ríkisendurskoðanda heldur snýst þetta um þær heimildir sem hann hefur. Við erum búin að koma hérna eitt af öðru og rökstyðja mjög ítarlega hvers vegna við teljum þörf á því að það verði sett á fót rannsóknarnefnd. Ég óska eftir því að meiri hlutinn komi hingað upp og útskýri hvers vegna ekki. Hvers vegna ekki? Þá langar mig að leggja áherslu á þau orð hv. þm. Orra Páls Jóhannssonar áðan (Forseti hringir.) þegar hann sagðist vera hlynntur því að velta við hverjum steini. Ríkisendurskoðandi getur ekki velt við hverjum steini.