152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:29]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli þeirri aðför sem stjórnarmeirihlutinn gerir hér að sjálfstæðri eftirlitsstofnun, Ríkisendurskoðun, þegar stjórnarmeirihlutinn reynir að nota þá stofnun sem skálkaskjól fyrir það að rannsaka ekki með fullnægjandi hætti sölumeðferðina á Íslandsbanka og hvika frá þeim loforðum sem gefin voru hér í gær um að skipuð yrði rannsóknarnefnd.

Í 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum segir:

„Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“

Nú er komið fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu: „Árétta skal að upplýsingar um tilboð eða tilboðsgjafa voru aldrei bornar undir fjármála- og efnahagsráðuneytið.“ Samt samþykkti fjármálaráðherra þessa sölu. Maðurinn er ekki starfi sínu vaxinn. (Forseti hringir.) Ráðherra samþykkti söluna án þess að vita hverjir voru að kaupa. Þetta er ráðherrann sem ber ábyrgð á því að lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins (Forseti hringir.) í fjármálafyrirtækjum sé fylgt. Hann ber ábyrgð á því að markmið þeirra laga séu uppfyllt. Hvernig gat hann lagt blessun sína yfir söluna (Forseti hringir.) án þess að vita hverjir ætluðu að kaupa? Hvers konar vanhæfni og hvers konar fúsk er þetta eiginlega? (Forseti hringir.) Og hvernig eigum við að trúa því þegar maðurinn hefur logið og logið í gegnum tíðina að hann hafi ekki vitað allt um það hverjir voru að kaupa? Þetta er hneisa (Forseti hringir.) og ég er brjálaður.

(Forseti (BLG): Ég þakka þingmanni fyrir að fá að nota bjölluna.)