152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Óli Björn Kárason kom einmitt að merg málsins: Ef hann og stjórnarliðar telja tilefni til eftir skoðun ríkisendurskoðanda þá skulu þeir sko standa við að fara í rannsóknarnefnd. Ókei, skoðum þessar fullyrðingar aðeins. Stjórnarliðum bauðst að við skyldum bíða með okkar kröfur, leyfa þeim að fara af stað með sína ríkisendurskoðunarrannsókn á meðan fyrir lægi samkomulag um það að ákvörðun um að fara í rannsóknarnefnd væri þá á forsendum stjórnarandstöðunnar. Að það væri okkar að meta, ekki þeirra sem valdið hafa heldur okkar, sem erum ekki að valda ráðherrann hérna, að meta það hvort eftir rannsókn ríkisendurskoðanda, sem þeim er svo annt um að fari fram einhvern veginn á undan, fáum við forræði yfir því að meta hvort það sé nauðsynlegt að halda áfram. (Forseti hringir.) Þessu höfnuðu stjórnarliðar. Það er bara eitt sem er hægt að lesa út úr þessu: Það stendur ekki til undir nokkrum kringumstæðum að hleypa rannsóknarnefnd Alþingis í verkið.