152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:50]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég hef í nokkur skipti í dag tjáð mig um það að mér finnist, eins og mér sýnist allir þeir þingmenn sem eru hér inni í þessum sal, að það ætti að vera þannig að það verði skipuð rannsóknarnefnd til að rannsaka þetta mál. Það breytti myndinni fannst mér töluvert að lesa ummæli Sigríður Benediktsdóttur í dag sem lýsir því afdráttarlaust yfir að það sé hennar skoðun að lög hafi verið brotin við sölu á hlut í Íslandsbanka og að hún vilji láta rifta hluta viðskiptanna. Hún vísar í 3. gr. laganna sem um ræðir, sem eru lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. En ég staldra líka við 4. gr. þar sem segir að Bankasýsla ríkisins annist sölumeðferðina í samræmi við ákvörðun ráðherra. Það er fyrsti punkturinn og hann er auðvitað augljós en hér benda stjórnarliðar mjög á Bankasýsluna, (Forseti hringir.) eins og Bankasýslan hafi fundið það upp hjá sjálfri sér að selja. En seinni punkturinn er það sem kemur í kjölfarið, þar sem segir að það sé ráðherra (Forseti hringir.) sem tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað. — Ég fæ að koma upp aftur.