152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[18:02]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa. Á síðustu öld annaðist Barnaverndarnefnd Reykjavíkur rekstur vöggustofa innan borgarinnar. Í gegnum tíðina hefur borið á gagnrýni á starfsemina, bæði á vettvangi borgarstjórnar og í fjölmiðlum og komið hefur fram að brugðist hafi að sinna þeirri frumskyldu samfélagsins að standa vörð um velferð barna og ungmenna. Í því ljósi er mikilvægt að hlutast séð til um ítarlega rannsókn á því sem átti sér stað á vöggustofum í borginni á síðustu öld með það fyrir augum að leiða hið sanna í ljós. Síðasta sumar samþykkti borgarráð Reykjavíkurborgar tillögu um að fara þess á leit við mig að gerðar yrðu nauðsynlegar breytingar á lögum til að mæla fyrir um úttekt á starfsemi vöggustofa sem reknar voru í Reykjavík á síðustu öld. Með þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir er brugðist við þessari málaleitan og vilja borgarinnar til að skipa nefnd til að framkvæma slíka úttekt. Markmið lagasetningarinnar er að gera Reykjavíkurborg kleift að fá greinargóða lýsingu á starfsemi umræddra vöggustofa, staðreyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru þar hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi á meðan á dvölinni stóð, hver afdrif þeirra barna sem vistuð voru á vöggustofum eftir af dvölinni lauk urðu og loks að fyrir liggi tillögur um frekari viðbrögð ef ástæða þykir til.

Með frumvarpinu er lagt til að veitt verði lagaheimild fyrir Reykjavíkurborg til að setja á fót nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa fyrir börn sem voru reknar af Barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Í frumvarpinu er mælt fyrir um markmið slíkrar könnunar, hvernig nefndin hagi störfum sínum, þar á meðal um aðgang að gögnum í vörslu stjórnvalda sem varða starfsemi vöggustofanna, skýrslutökur fyrir nefndinni og aðra upplýsingaöflun hennar.

Í stuttu máli, herra forseti, eru þetta meginatriði frumvarpsins sem flutt er að gefnu dapurlegu tilefni eins og við þekkjum öll. Þetta er dökkur blettur á sögu barna á Íslandi og það er mjög mikilvægt, bæði fyrir börnin og foreldra þeirra sem tengjast vöggustofunum, að við upplýsum þetta mál. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið hér, held að það skýri sig að mestu leyti sjálft, en ég hygg að það njóti velvildar í öll þingflokkum.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.