152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[18:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil heils hugar taka undir þetta með hæstv. forsætisráðherra og við í Viðreisn styðjum þetta mál. Ég vil þakka fyrir röskleg viðbrögð forsætisráðherra, að koma með þetta inn, það skiptir máli að upplýsa um feril vöggustofa og það sem gerðist þar, fá betri mynd af því sem þar gerðist til að við séum betur í stakk búin til að takast á við nútíðina en ekki síður framtíðina. Síðan er það auðvitað fagnaðarefni að við erum a.m.k. að fá samþykkta hér eina rannsóknarnefnd í dag þó að við hefðum gjarnan viljað fá a.m.k. tvær, eins og hæstv. ráðherra á að vera kunnugt um. En þetta er mikilvægt og er mikilvægt fyrir þá sem málið snertir og varðar og ekki síst fjölskyldur þeirra, þannig að erindi mitt hingað í þennan ræðustól í þessu andsvari við hæstv. forsætisráðherra er einfaldlega að þakka ráðherra fyrir þetta. Ég vona að það verði strax farið að vinna í þessu máli. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún sér síðan framvinduna fyrir sér varðandi tímarammann í þessu máli.