152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[18:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar orð. Það er mikilvægt að það verði ráðist í þessa rannsókn og ástæða þess að ég óskaði eftir því að fá að koma því á dagskrá hér er að ég vonast til þess að það verði afgreitt áður en þingi lýkur í vor og mér finnst eðlilegt að þingið þurfi einhvern tíma til að fara yfir málið. Borgin vill geta ráðist í þessa rannsókn sem fyrst, það skiptir máli fyrir þau að þessar heimildir liggi fyrir. Undirbúningurinn hefur tekið nokkurn tíma þó að brugðist hafi verið tiltölulega hratt við, eins og hv. þingmaður sagði, en það tekur alltaf tíma að reyna að móta afmörkun efnisins. Eins og kemur fram í greinargerð þá bárust ákveðnar athugasemdir í samráðsferlinu sem brugðist er við, þ.e. sumum þeirra en öðrum ekki, því að talið er að við eigum nægjanlega góða leiðbeiningu í fyrri lögum um rannsókn á meðferð á börnum, hinum svokölluðu vistheimilalögum sem hv. þingmaður þekkir auðvitað vel. Ég vonast því nú til þess að þetta geti gengið tiltölulega hratt. En eins og við vitum, af því að hv. þingmaður nefnir rannsóknarnefndir, getur vinna þeirra tekið tíma. Það er nokkuð sem við þekkjum frá vinnu fyrri rannsóknarnefnda, en ég veit að þeir aðilar sem hafa barist fyrir þessu máli munu fagna því mjög að það sé a.m.k. komið á þennan stað.