152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[18:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég get bara svarað því játandi, ég geri mér grein fyrir því að það skiptir máli að þau sem rannsaka slík mál hafi fullnægjandi heimildir. En ég vil líka nefna það hér, af því að hv. þingmaður setur þetta í samhengi við önnur mál, að í þessu tilviki fór fram mjög ítarleg umræða og undirbúningur af hálfu Reykjavíkurborgar í því skyni að afmarka þetta mál, greina það hvaða heimildir þyrfti, hvaða spurningum þyrfti að svara, fara yfir þau erindi sem höfðu borist o.s.frv. Í framhaldinu var leitað til okkar í forsætisráðuneytinu. Upphafleg hugmynd borgarinnar var að forsætisráðuneytið myndi sinna þessari rannsókn. Niðurstaða þess samtals varð að það færi betur á því að borgin fengi þær heimildir sem hún þyrfti til að sinna þessari rannsókn. Í þessu samhengi vil ég segja, af því að hér hefur mikið verið rætt um rannsóknarnefndir um önnur mál í dag, að það skiptir líka máli að Alþingi setji það niður fyrir sér, eins og ég veit að fyrirhugað er að gera, m.a. með miklum fundahöldum sem boðuð eru hér að loknum páskum með Bankasýslu ríkisins og fleiri aðilum, hvernig við viljum nálgast þau mál. Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að mér er annt um það að allt sé uppi á borðum, hvort sem um er að ræða vöggustofur í Reykjavík á 20. öld eða sölu á eignarhlut ríkisins í bönkum. Ég get lofað hv. þingmanni að mér finnst það mikilvægt.