152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[18:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er harla ólíkt verkefni að rannsaka meðferð á börnum á vöggustofum í áraraðir og áratugi sem gerðist hér fyrr á árum. Eðlilega þarf að skoða hvaða árabil eigi að fjalla um, hvaða fólk var þarna, hvað það voru mörg börn sem þarna eru undir og þess háttar. Harla ólíkt því verkefni sem liggur fyrir varðandi bankasöluna sem gerist á einhverjum sex klukkutíma ramma, broti úr degi, með ákveðnum leikreglum þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að það verði óyfirstíganlegt að setja það verkefni í einhvers konar ferli. Hvet ég hæstv. ráðherra til þess að leyfa stjórnarliðum að fallast á að rannsóknarnefnd Alþingis fái það verkefni.

Annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er það verkefni sem hv. velferðarnefnd lagði til á síðasta þingi um að sett yrði á laggirnar rannsóknarnefnd er rannsakaði meðferð á fullorðnum, fötluðum einstaklingum og fullorðnum einstaklingum með geðrænar áskoranir sem vistaðar voru á heimilum eða stofnunum af hálfu ríkisins síðustu áratugi og allt til dagsins í dag. Það var samþykkt hér þingsályktunartillaga um að farið yrði í einhvers konar svona rannsókn en það þurfti þó að skila inn þingsályktunartillögu um að rannsóknarnefnd yrði sett á laggirnar. Hvar er þetta mál statt? Ég spyr því að málið fór í millitíðinni inn í forsætisráðuneytið. Er von á þingsályktunartillögu núna á þessu vorþingi um rannsóknarnefnd Alþingis til að skoða líka nútímann, hvernig farið er með fólk sem er með geðrænar áskoranir og fatlanir á vegum hins opinbera, inni á lokuðum deildum og annars staðar? Hvar er það mál statt?