152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[18:18]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari skýrslubeiðni. Það er athyglisvert að forsætisráðherra sagði áðan að þarna gæti verið um að ræða 1.200 börn, jafnvel á áttræðisaldri. Börn eru náttúrlega ekki á áttræðisaldri en það eru kannski 60–80 ár síðan brotið var á þeim. Hvaða lærdóm er hægt að draga af þessu? Það er eins og ríkið grípi frekar til varna til að verja kerfið, verja það sem rangt hefur verið gert, heldur en að huga að fórnarlömbum og gerir það jafnvel í tugi ára áður en að viðurkennt er að kannski sé einhverra aðgerða eða rannsókna þörf. Ríkið má ekki fara svona undan í flæmingi, jafnvel í tugi ára, og neita fólki þannig um réttlæti allan þann tíma.

Hér hefur mikið verið rætt um rannsóknarskýrslur í dag. Við erum búin að vera að ræða um eina sem, eins og á var bent, á að fjalla um atburði sem gerðust ekki fyrir tugum ára og gerðust ekki yfir langan tíma heldur gerðust á sex tímum núna fyrir stuttu. Það væri góð tilbreyting að taka strax til við að rannsaka það í staðinn fyrir að það þurfi að bíða svo vikum, mánuðum eða jafnvel árum og áratugum skiptir eftir því að eitthvað verði gert. Í þessu samhengi vil ég líka minna á að hrunið er á fermingaraldri. Í haust er það orðið 14 ára gamalt. Þarf það að komast á áttræðisaldur áður en það verður eitthvað skoðað hvað gerðist eftir það, hvernig staðið var að hlutunum eftir það?

Ég fagna, eins og ég sagði áður, rannsókn á vöggustofum og treysti því að hún verði góð og ítarleg og gefi fórnarlömbunum rödd sem á verður hlustað, að þau upplifi þá loksins að verið sé að taka mark á sögu þeirra og að þau skipti einhverju máli og að sögur þeirra skipti einhverju máli. Ég hvet líka hæstv. forsætisráðherra til þess að breyta þessum kúltúr hjá ríkinu, að grípa alltaf til varna og verja gjörðir sínar út yfir gröf og dauða, jafnvel þegar ljóst er að þær hafi verið rangar. Það er ekki gott.

Mig langaði bara til að koma þessu að varðandi alla vega þrenns konar rannsóknarskýrslur sem hér hafa verið ræddar í dag. Þær eiga allar fullan rétt á sér og í þeim öllum eru raddir sem eiga rétt á að fá að heyrast.