Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:20]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér hvetur hæstv. ráðherra þingheim til að vera ekki að fella einhverja dóma um það fyrir fram hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis o.s.frv. en í yfirlýsingu sem formenn stjórnarflokkanna sendu frá sér þann 19. apríl síðastliðinn er því slegið föstu að það hafi verið annmarkar við undirbúning og framkvæmd sölu á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Og með vísan til þeirra annmarka sem er fullyrt að þarna hafi verið fyrir hendi kemur fram að ríkisstjórnin ætli að leggja það til að heil ríkisstofnun verði lögð niður. Hæstv. forsætisráðherra fylgdi svo þessari yfirlýsingu eftir með viðtölum þar sem hún hengdi þessa annmarka á Bankasýsluna, að þeir væru framkvæmdarlegs eðlis, sagði hún, og að framkvæmdin væri á hendi Bankasýslunnar.

Þess vegna vil ég fá að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvaða annmarkar það nákvæmlega eru sem þarna er verið að vísa til. Og fyrst annmarkarnir liggja hjá Bankasýslunni vil ég líka fá að spyrja: Hvernig og að hvaða leyti nákvæmlega vék Bankasýsla ríkisins frá forskrift ráðherra, frá ákvörðunum og uppleggi ráðherra, við söluna á Íslandsbanka?