Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:22]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlustaði vel á ræðu hæstv. ráðherra. Þar talaði hann sérstaklega um t.d. þetta með söluráðgjafana, hvort menn hafi verið að selja sjálfum sér hlut eða aðilum sér tengdum. Það er væntanlega atriði sem við getum ekki að svo stöddu slegið neinu föstu um hvort hafi verið á ferðinni og hvort það hafi verið óeðlilegt. Þannig talaði a.m.k. hæstv. ráðherra. Um gagnsæi og upplýsingagjöf þá væri auðvitað fróðlegt að heyra kannski betur hvað það nákvæmlega er. Við vitum að það var ákveðinn skortur á gagnsæi eftir söluna en í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um annmarka við undirbúning og framkvæmd. Þá myndi ég gjarnan vilja heyra að hvaða leyti ráðherra telur að Bankasýslan hafi haldið upplýsingum frá þinginu eða almenningi. Í 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum segir:

„Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“

Eins og við vitum tók hæstv. fjármálaráðherra þessa ákvörðun sem mælt er fyrir um í lögunum þann 22. mars síðastliðinn. Ég vil fá að spyrja hæstv. ráðherra hér í seinni umferðinni hvernig hann tók afstöðu til þessa rökstudda mats Bankasýslunnar, hve langan tíma hann og hans ráðuneyti tóku sér til að geta tekið upplýsta ákvörðun um gögnin sem lágu fyrir, hvort gengið yrði að tilboðum, og hvaða upplýsinga hæstv. ráðherra aflaði til að geta lagt viðhlítandi grundvöll að ákvörðuninni. Eins vil ég gjarnan fá að heyra til hvaða lagasjónarmiða hæstv. ráðherra leit þegar hann tók ákvörðunina, hvaða lögum og reglum hann taldi sig bundinn af þegar þessi ákvörðun sem kveðið er á um í 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum var tekin.