Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að ráðherra ber ábyrgð á framkvæmd laganna og Bankasýslan ber auðvitað líka ábyrgð á því faglega starfi sem þar á að fara fram og því að hlíta lögum um sitt hlutverk. Það sem ég held að hv. þingmaður sé að velta fyrir sér er ekki bara þetta heldur það hvernig ráðherra geti risið undir þessari ábyrgð. Það held ég að sé lykilspurningin hér ef menn vilja ræða þetta af einhverri yfirvegun. Það tel ég að ráðherrann geri með því að gefa skýr fyrirmæli, með því að gefa fyrirmæli sem eru í samræmi við lögin, með því að hlusta eftir þeim umsagnaraðilum sem eru skrifaðir út í umsagnarferlinu, með því að vanda allan undirbúning og aðdraganda, t.d. með því að ræða málið í ráðherranefnd og hafa samráð í ríkisstjórn, og segja síðan við Bankasýsluna: Það er nákvæmlega svona sem við viljum að þetta sé gert. Bankasýslunni þarf síðan að veita aðhald með því að skipa henni stjórn og stjórnin ber líka sína ábyrgð á því að ráða forstjórann og sjá til þess að þar fari hlutir fram lögum samkvæmt. Svona rísum við undir ábyrgðinni með ákveðnum hætti. En ef hv. þingmaður er að gefa það í skyn að ef einhvers staðar í þessari ábyrgðarkeðju einhver brýtur lög með opin augun lögin, hvort það hljóti þá ekki að vera ráðherraábyrgðarmál, þá finnst mér hann vera kominn út í skurð. (Gripið fram í.) — Nei. En þetta er aðalatriði málsins. Svo geta menn rætt um pólitíska ábyrgð líka. Pólitíska ábyrgðin í mínum huga hér snýst aðallega um þá stefnumörkun að losa um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það er stefna sem ég vil tala fyrir og vil áfram berjast fyrir og er bara stoltur af því. Ég tel að við höfum verið að gera vel og ég tel að íslenskur almenningur, með stórbættri stöðu ríkissjóðs, hafi nú þegar notið verulega góðs af því sem gerst hefur frá því að við tókum yfir án endurgjalds þennan stóra eignarhlut í Íslandsbanka.