Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar talað er um hagkvæmni í lögunum þá er vissulega verið að vísa til þess að reyna að hámarka virði eignarhlutarins. En það er líka bundið í lög að okkur beri að ná mörgum öðrum markmiðum, t.d. að tryggja samkeppni á markaði, eftirmarkaði. Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. þingmanns á umsögn Samkeppniseftirlitsins frá því fyrir um ári síðan í aðdraganda almenna útboðsins þar sem verulegum áhyggjum var lýst af því að bankinn myndi á endanum eingöngu rata til lífeyrissjóðanna. Verulegum áhyggjum var lýst af því vegna þess að lífeyrissjóðirnir væru nú þegar oðrnir stórir hluthafar í fjármálakerfinu og væru mjög stórir í öllum fyrirtækjum á samkeppnismarkaði á Íslandi og það færi ekki vel á því að lífeyrissjóðirnir einir myndu eignast bankana. Þetta segi ég vegna þess að hv. þingmaður talaði um það hér að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki fengið allt það sem þeir vildu. Ég held að það hafi bara verið ágætt að þeir hafi ekki fengið allt sem þeir vildu. Ég held að aðalatriðið hafi verið það að við værum að ná þessum meginmarkmiðum um dreift eignarhald, fjölbreytni í eigendahópnum. Það er með hliðsjón af því sem Bankasýslan á endanum leggur til útboðsgengið þannig að ná megi þessum ólíku markmiðum, þar með talið hagkvæmninni. En hagkvæmnin og verðið er að mínu mati gott. Hv. þingmaður orðar það afslátt. Ég myndi segja að það sé í raun og veru ekki veittur neinn afsláttur. Markaðurinn er á þessum degi spurður: Hvað fáum við fyrir þetta magn af bréfum? Og svarið var rúmir 50 milljarðar. Markaðurinn svaraði því þennan dag hvað þetta magn af bréfum myndi seljast á ef þú ætlaðir að ná þessum markmiðum sem lagt var upp með. Hefði verið hægt að selja hlutinn fyrir hærra verð? (Gripið fram í.) Ég get alveg trúað því að það hefði verið hægt að selja þennan hlut á eitthvað hærra verði. Ég get alveg trúað því, sérstaklega ef við hefðum afhent allan hlutinn einum aðila. En við ákváðum að gera það ekki. Ég heyrði engan leggja það til reyndar, aldrei.