Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:09]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjöldinn allur af spurningum. Halda í Bankasýsluna? Ég myndi bara gera kröfu um að fyrirmæli til Bankasýslunnar séu skýr. Það er ekkert endilega í grundvallaratriðum við Bankasýsluna per se sem er athugavert. Það er kannski mögulega hver stýrir þar, hver stjórnar, hver er stjórnarformaður og hvers konar fyrirmæli voru gefin og hver fylgdi þeim. Ég veit ekki í hvaða vegferð hæstv. ráðherra er að reyna að draga mig með því að fá mig til að segja að ég vilji eða vilji ekki halda í Bankasýsluna. Þetta snýst ekkert um Bankasýsluna.

Spurningin af hverju ég sem stakur þingmaður sá ekki fyrir að hæstv. fjármálaráðherra myndi leggja í vegferð sem er svo út úr kú við hefðbundna venju í tilboðsferli finnst mér ansi merkileg. Viltu ekki bara afhenda mér lyklana? Liggur ekki fyrir að það er hæstv. ráðherra sem á að fylgjast með því að fyrirmælum sé fylgt? Þegar verið er að tala um að af því að verðið lækkaði ekki þá hafi ekki verið hætta — ég var ekki að tala um neina hættu. Ég las upp minnisblað sem er uppfullt af staðreyndum sem var komið á þingmenn og nær allir hv. þingmenn sem sitja í þessum sal skildu þá framsetningu þannig að um langtímafjárfesta væri að ræða og með því að tala um áhættu á markaði við að selja væri þar með verið að tala um að vera ekki með aðila sem selja sig hratt út. Það er verið að fara fram og til baka í hlutina. Ég get bara fullyrt það að mér datt ekki í hug, ég hafði ekki hugmyndaflug í, að hæstv. ráðherra og Bankasýslan færu svo á skjön við hefðbundið tilboðsferli að ég sem stakur þingmaður þyrfti að setjast inn á skrifstofu hæstv. fjármálaráðherra og segja honum hver venjan er í viðskiptum á markaði.