Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:16]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Með sölunni á Íslandsbanka í mars síðastliðnum brást ríkisstjórnin trausti þjóðarinnar og það í mjög mikilvægu máli. Seldur var 22,5% hlutur ríkisins í bankanum með tilboðsfyrirkomulagi og fengust rúmir 52,6 milljarðar kr. fyrir. Í þessu máli hvílir skuggi hrunsins enn yfir þjóðinni. Þjóðin uppgötvaði með þessu útboði að stjórnvöld, pólitíkin, Alþingi og ríkisstjórnin hafa ekkert lært af hruninu í október 2008. Það eru raunverulega skilaboðin sem hún var að senda. 82% af þjóðinni eru óánægð með þetta útboð.

Það eru þrettán og hálft ár síðan hrunið var og þegar maður kemur til Íslands eða er hérna á Íslandi þá er eins og þetta hrun, þetta svokallaða hrun, hafi verið fyrir tveimur, þremur árum síðan. Úti í hinum stóra heimi eru nánast allir búnir að gleyma því sem gerðist 2008. Það hafði vissulega pólitískar afleiðingar en samfélögin eru löngu komin yfir það. Ísland er ekki komið yfir það. Þetta útboð sýnir að íslensk stjórnvöld, bæði hvað varðar hæfni, getu og pólitískan vilja til að einkavæða ríkisbanka og framkvæma jafn einfaldan hlut og selja hlutabréf í banka, virðast ekki ráða við það. Við sem sjálfstæð þjóð, sjálfstæð lítil þjóð í Norður-Atlantshafi, virðumst ekki ráða við það að hafa vel fúnkerandi og sjálfstætt fjármálakerfi. Það eru skilaboðin sem þjóðin er að fá. Við treystum því ekki. Í hruninu var þjóðin svikin. Um 18.000 fjölskyldur misstu heimili sín.

Varðandi bankasöluna setti Alþingi lög árið 2012, lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nr. 155/2012. Það mætti halda að þeir sem framkvæmdu þessa sölu hafi ekki kynnt sér meginreglur þessara laga og hvernig ætti að framkvæma þetta og fylgja þeim meginreglum. Það er svo augljóst þegar maður fer yfir þetta, þetta eru einföld lög og raunverulega eru þetta jafn sjálfsögð lög og hvað sem er. Það er margt í þessu sem er í lögunum; gagnsæi, hagkvæmni, skilyrði og annað slíkt. Það segir sig sjálft að þegar ríkið fer að selja hlut, þá þarf að setja skilyrði og, með leyfi forseta, vil ég lesa 3. gr. laganna:

„Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skal við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.“

Þarna eru sex atriði. Opið söluferli. Þessi hluti var ekki opið söluferli. Það var lokað söluferli. Gott og blessað. Gagnsæi. Var gagnsæi? Jú, á endanum var birtur listi yfir þá sem tóku þátt. Það voru vissulega birt ákveðin skjöl um það hvernig ætti að framkvæma þetta. Í kjölfar útboðsins var samt reynt að halda listanum yfir kaupendur leyndum. Stjórnendur Íslandsbanka vitnuðu í lög um persónuvernd, að það mætti ekki birta lista þeirra kaupenda sem væru undir 1%. Það er stór hluti kaupendanna, það eru hátt í 200 aðilar.

Nú hef ég unnið með persónuverndarlög fjögur ár erlendis og mér blöskraði framkoma Íslandsbanka í þessu máli, það var verið að hylma yfir í málinu. Það var það sem var verið að gera. Íslenska þjóðin hefur ríka almannahagsmuni af því að fá að vita hverjir keyptu. Það er líka í lögum að það eigi að birta listana. Gagnsæið gerir kröfu til þess að listi yfir þá sem gerðu tilboð og keyptu sé birtur. Annars er ekki gagnsæi, svo einfalt er það og almannahagsmunir alveg skýrir. Stjórnarformaður Bankasýslu vitnaði í bankaleynd, að líklega — hann notaði orðið líklega — ætti ekki að birta nöfnin undir 1% út af bankaleynd. Bankaleynd lýtur að leynd gagnvart viðskiptavinum, ekki hluthöfum. Það var allt reynt. Sú framkoma var með hreinum ólíkindum og ég tel að stjórnendur Íslandsbanka eigi að segja af sér og leita annað með vinnu en að vera í bankastarfsemi, a.m.k. fyrir hönd ríkisins. Það er alger trúnaðarbrestur gagnvart stjórnendum bankans eftir þetta. En listinn var birtur þannig að það var gagnsæi að ákveðnum hluta hvað varðar kaupendur.

Varðandi hlutlægnina og kaupendur sem voru endanlega samþykktir, þeir sem hringt var í — þar var ekki gætt hlutlægni. Varðandi hagkvæmnina þá var selt með afslætti umfram eftirspurn. Það er ekki hagkvæmni. Það segir í lögunum að með hagkvæmni sé átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti, þannig að það var brotið, það var ekki hagkvæmni. Jafnframt segir í lögunum: „Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis.“

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra í tvígang í andsvörum áðan: Hver voru skilyrðin? Hvaða skilyrði voru sett? Einu skilyrðin sem ég veit til að hafi verið sett er að gerð var krafa um fagfjárfesta. Þetta hefur breyst yfir í hæfa fjárfesta. Hugtakið hæfir fjárfestar er ekki til. Hæstv. forsætisráðherra notaði hugtakið hæfir fjárfestar og svo núna hæstv. fjármálaráðherra. Fagfjárfestir, hver er fagfjárfestir? Það er einfaldlega aðili sem sjálfur getur tekið ákvörðun um fjárfestingu og metið áhættuna sem henni fylgir. Það er fagfjárfestir, það er ekki merkilegra en það. Það segir meira að segja í lögunum að fólk geti óskað eftir að vera talið fagfjárfestir. Það að meta áhættuna — það þarf vissulega ef þú ert með milljarðaviðskipti, en að fara að halda því fram að einstaklingur sem kaupir fyrir 1.100.000 kr., þegar almenningur keypti fyrir eina milljón í vor, að hann sé fagfjárfestir í þeim skilningi að eiga að taka þátt í lokuðu útboði, bara stenst ekki nokkra einustu skoðun, enga. Þannig að sanngjörn skilyrði og jafnræði voru ekki í þessu útboði. Það var ekki gert og ráðherrann hefur ekki svarað því hvaða skilyrði voru lögð fram önnur en það að það var fagfjárfestir. Engin skilyrði virðast hafa verið lögð fram, ekki nokkur einustu.

Núna talar fjármálaráðherra um að þetta sé að hluta til vel heppnað útboð, þetta lokaða útboð. Samt á Ríkisendurskoðun að fara yfir málið. Seðlabanki Íslands er að skoða málið og Fjármálaeftirlitið er að skoða málið. Það er ekki af því þetta sé vel heppnað útboð, það bara er ekki þannig. Að sjálfsögðu þarf að skipa óháða rannsóknarnefnd til að fara yfir þetta mál, svo að hægt sé að skapa traust í samfélaginu, traust til bankakerfisins, traust til stjórnvalda og traust til Alþingis Íslendinga. Það er einungis þannig sem traustið verður endurreist, og ekki var það mikið fyrir.

Við skulum hafa í huga að fjármálamarkaður á Íslandi er vanþróaður. Það er mjög reyndur íslenskur bankamaður sem stundar fjármálaviðskipti í Úkraínu. Hann var hérna fyrir hrun, var með fjármálafyrirtæki hér. Hann sagði að hann væri sérfræðingur í vanþróuðum fjármálamörkuðum. Hvar fékk hann þá sérfræðiþekkingu? Jú, á Íslandi. Við höfum ekki náð að vinna okkur upp úr því enn þá.

Varðandi orðstír Íslands þá var hann nú ekki mikill fyrir. Eftir hrunið hrundi orðstír Íslands. Ísland var með, fyrir hrun og við einkavæðingu bankanna 2003, gríðarlega góðan orðstír. Þessu var öllu sólundað fyrir hrun og sá orðstír hrundi gjörsamlega. Það sem eyðilagði líka orðstír Íslands var að fyrir nokkrum árum var Ísland sett á lista yfir ósamvinnuþýð ríki þegar kemur að skilyrðum varðandi peningaþvætti og var þar í nokkur ár. Á þeim lista eru ríki sem hafa raunverulega ekki þróað fjármálakerfið á nokkurn einasta hátt. Núna kemur þetta fram aftur, þessi sala. Það er alveg klárt mál að hún er ekki til að auka orðstír Íslands á nokkurn einasta hátt.

Fjármálaráðherra sagði áðan að í þessu útboði hefði verið selt á 50% hærra verði en fyrir hálfu ári síðan, 50% hærra verði. Vert er að upplýsa ráðherrann um það að hagnaður bankanna jókst um mun meira en 50% á milli áranna 2020 og 2021. Þar jókst hagnaðurinn um meira en 100%. Hann jókst úr 29 milljörðum árið 2020 í 82 milljarða árið 2021. Er þá einhver hissa á því að bankarnir skuli hækka í verði? Raunverulega er þetta ekki nægileg hækkun. Virði bankanna er metið út frá því að þarna er um sjálftöku á hagnaði að ræða. Það er það sem er verið að gera. Það er verið að selja banka hérna í samkeppnisleysi. Það þýðir að bankarnir geta nánast ákveðið sjálfir hver hagnaðurinn á að vera. Það er í raun verið að veita aðgang að sjálftöku á hagnaði hérna. Það er það sem endurspeglar verðið.

Kannski ætti hæstv. fjármálaráðherra að kynna sér samkeppnisleysi á íslenskum bankamarkaði. Það er algjört. Samkeppnisleysið sýnir algjört stefnuleysi stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar á bankamarkaði og sem eigandi tveggja af þremur stærstu bönkum landsins er um algert stefnuleysi að ræða. Það er frekar farið út í að auka hagnaðinn um tugi milljarða, úr 29 milljörðum árið 2020 í 82 milljarða í fyrra, árið 2021. Það er meira en 50 milljarða aukning á hagnaði. Það sem raunverulega keyrir áfram hagnað bankanna er ekki stefna ríkisstjórnarinnar eða stjórnvalda á bankamarkaði. Nei, það er mjög líklega bónuskerfi stjórnenda ríkisbankanna. Það er það sem keyrir áfram hagnaðinn. Það er ekki að ríkisstjórnin eða stjórnvöld hafi ákveðið að auka samkeppni svo almenningur njóti góðs af því að það sé samkeppni á bankamarkaði. Nei, það er ekki gert. Það er frekar verið að keyra upp hagnaðinn og þessi peningur, þessir 82 milljarðar, kemur beint frá almenningi og ekki neins staðar annars staðar frá. Það er afleiðingin af stefnuleysinu. Önnur afleiðingin af þessu stefnuleysi sem endurspeglast algerlega í sölunni núna er að eignamyndun Íslendinga, eignamyndun almennings, venjulegs fólks, er mun verri en í nágrannalöndunum.

Mig langar nú, á þeim litla tíma sem ég á eftir, líka að benda á annað sem hefur verið til umræðu hér en það er 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þar kemur fram að ráðherra skuli taka ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirriti samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.

Virðulegi forseti. Hér er verið að segja að stjórnarandstaðan sé að halda því fram að ráðherra eigi að handvelja þá sem eru samþykktir. Nei, auðvitað ekki. Það sem verið er að tala um í greininni er að ráðherra tekur ákvörðun um það hvort tilboð skuli samþykkt eða ekki. Þá er hann að samþykkja það á grundvelli þess hvort kaupendur hafi uppfyllt þau skilyrði sem hafa verið sett eða ekki. Það virðist vera að stjórnvöld, ráðherra, fjármálaráðherra og Bankasýslan, hafi ekki sett skilyrði í þessu lokaða útboði nema að það voru fagfjárfestar. Það voru engin skilyrði um gæði kaupendanna, fyrirætlan þeirra um bankana eða þá að þeir ætluðu að eiga hlutinn eitthvað áfram. Margir seldu strax og kaupandi fyrir 1.100.000 kr. er smáfjárfestir sem hefur enga þýðingu. Auðvitað átti að hafa þetta opið útboð ef eitthvað átti að gera en ekki lokað útboð fyrir útvalda fagfjárfesta sem gátu verið að kaupa upp á 1.100.000 kr., það er algerlega hlægilegt.

Síðan er farið að vitna í einhverja erlenda fjárfesta, erlenda ráðgjafa og hvernig þetta er gert úti í heimi. Ef einhver fer að tala um það, ef maður skoðar lista þeirra sem keyptu, fyrir þá smápeninga sem var raunverulega vera að kaupa, miðað við þau viðskipti sem eiga sér stað — um leið og maður fer að tala um að verið sé að kaupa hérna fyrir 1.100.000 kr., fyrir smápening, þá er farið að tala um lífeyrissjóðina. Það er hellingur af fólki á Íslandi sem á tugi milljóna króna, ef ekki meira, sem eru ekki lífeyrissjóðir, mjög margt fólk sem hefði gjarnan viljað taka þátt í þessu í staðinn fyrir að vera að kaupa þriðju eða fjórðu íbúðina sína. En það var ekki gert.

Það að ráðherra skuli síðan hafa framselt valdið í 4. gr. út fyrir ráðuneytið, til ytra stjórnvalds, án lagaheimildar er líka lögbrot. Það er alveg kristaltært. Ég hef unnið í ráðuneyti. Að sjálfsögðu átti ráðherra sjálfur ekki að fara yfir það. Það er allt ráðuneytið sem fer yfir þetta og það er það sem samþykkir þetta. Ráðherrann sjálfur persónulega fer ekki að gera það. Það er þannig sem er unnið. Hann lætur Bankasýsluna algerlega um þetta og ég hef aldrei nokkurn tímann á ævinni heyrt jafn mikla misnotkun á hugtökum hérna eins og armslengd og fleiri hugtökum sem eru bara til þess ætluð til að þyrla upp moldviðri og þvæla umræðuna fram og til baka þegar lögin eru mjög skýr, (Forseti hringir.) kristaltær. Ef ég væri fagfjárfestir í dag sem hefði lögvarða hagsmuni þá myndi ég fara með það fyrir dómstóla til að fá það staðfest að lögin væru brotin. (Forseti hringir.) Ég tel að hæstv. ráðherra ætti að sætta sig við það og Alþingi Íslendinga ætti að samþykkja rannsóknarnefnd í þessu máli. (Forseti hringir.) Annað er ekki við hæfi.