Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er tvennt sem mig langar til að fá fram hjá hv. þingmanni; annars vegar er það málsmeðferðin í fjárlaganefnd og tíminn sem fjármálaráðuneytið skipaði okkur að skila fyrir. Hvers konar meðhöndlun er það á hlutverki þingsins og faglegum vinnubrögðum þingsins að framkvæmdarvaldið, sem starfar samkvæmt umboði þingsins, starfar undir eftirliti þingsins, geti reynt að skikka og stjórna því hvernig þingið starfar? Hitt er síðan að í öllu þessu ferli sjáum við að sjálfsögðu vísbendingar um að það sé möguleg markaðsmisnotkun þar sem söluaðilar selja tengdum aðilum og ýmislegt svoleiðis, það er ákveðinn orðrómur sem er vissulega gott að rannsaka o.s.frv. En það liggur fyrir og það er alveg bláköld staðreynd að fjármálaráðherra seldi pabba sínum hlut í bankanum. Og það var ekki í almennu útboði, það hefði verið fínt í frumútboðinu, það hefði enginn gert athugasemd við það, það eru allir með aðgang að því. En í lokuðu útboði; er það ekki augljóst vandamál?