Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Já, það er af mörgu að taka í þessari umræðu og þrátt fyrir nokkurn tíma hér í þinginu er mörgu ósvarað. Þetta mál er svo mikilvægt og af þeirri stærðargráðu að það þarf eðlilega að ræða þetta mjög ítarlega hér innan þingsins, á þessum lýðræðislega kjörna vettvangi, en líka að fá tækifæri til að ræða þetta úti í samfélaginu og við fjölmiðla sem mér finnst nú satt best að segja að ráðherrar hafi ekki verið nægilega duglegir við að gera. Mér finnst ríkisstjórnin hafa veigrað sér við að fara í umræðuna, skýlt sér á bak við páskana, svarað fjölmiðlum seint og illa og þegar ráðherrar mæta síðan hingað í þingið þá eru þeir, eins og við upplifðum bara fyrr í dag, frekar pirraðir og í gríðarlegum útúrsnúningaham.

Eftirlitshlutverk þingsins er mikilvægt og þess vegna fannst mér líka frekar leitt að fylgjast með því að ríkisstjórnin tilkynnir mikla stefnubreytingu í miðju páskaleyfi þegar sagt var frá nýjustu áformum ríkisstjórnarinnar, þ.e. að leggja niður Bankasýslu ríkisins, ekki einu sinni tekin formleg ákvörðun, formfestan að engu virt, innan ríkisstjórnar heldur einfaldlega gefin út yfirlýsing og skoðun þriggja formanna stjórnarflokkanna. En loksins gefst okkur núna tækifæri til að fara yfir þetta.

Þetta snýst ekki um það hvort rétt sé að leggja Bankasýsluna niður núna eða ekki. Þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru að mínu mati, eftir allt þetta írafár í samfélaginu, eru ekkert annað en tilraun til hvítþvottar og tímasetningin er auðvitað þannig að ég tel að ríkisstjórnin sé að skella svolítið skuldinni á þessa ríkisstofnun sem fjármálaráðherra ber ábyrgð á og hann veitir tilmæli til. Hann skipar stjórnina. Þetta er opinber stofnun og í lögum um Bankasýslu ríkisins segir til að mynda að forstjóri stofnunarinnar fari eftir lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Skýrara getur það ekki verið. Það er að mínu mati smjörklípa að leggja Bankasýsluna á þessu stigi niður. Þetta útspil svarar ekki reiði almennings. Ríkisstjórnin er algerlega að leiða gagnrýnina hjá sér. Hún þvælir málið áfram af hræðslu við eigin ábyrgð, því að vel að merkja, eins og bent hefur verið á, þá var fyrir páska allt í lagi með Bankasýslu ríkisins. Þá var þetta bara fjandi fínt. Því má eðlilega spyrja: Hvað gerðist yfir páskana? Hvað kom fyrir, hvað breytti mati ríkisstjórnarinnar annað en gríðarlegur pirringur og panik á stjórnarheimilinu? Ríkisstjórnin vill sem sagt framselja bæði sína pólitísku og stjórnsýslulega ábyrgð yfir á Bankasýsluna og það er ekki hægt. Lögum samkvæmt er það ekki hægt.

Ég vil líka taka fram að það voru stór pólitísk skilaboð í þessari yfirlýsingu eða tilkynningu um miðja páska þar sem skýrt var frá því að öllum áformum um frekari sölu bankanna yrði frestað, þessu stærsta máli Sjálfstæðisflokksins og í rauninni því eina sem hann kom fyrir, enda málið risastórt, í stjórnarsáttmálanum. Önnur mál í stjórnarsáttmálanum eru nokkurn veginn frá Vinstri grænum eða öll sameiginlega frá öllum stjórnarflokkunum. Með þessari yfirlýsingu um að hætta sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálakerfinu þá er líka verið að víkja frá gildandi eigendastefnu ríkisins. Auðvitað er þetta risaákvörðun sem á að taka á formlegum fundi ríkisstjórnarinnar. Það er heldur ekki eitthvert aukamál sem er afgreitt í einhverjum önugheitum hér á þingi. Þetta er líka hlutur sem verður að fara yfir og verður að ræða. En þetta er hins vegar hlutur sem Ríkisendurskoðun á í erfiðleikum með að fara yfir. Svona nokkru getur bara rannsóknarnefnd þingsins svarað.

Það sem þetta segir mér hins vegar er að ríkisstjórnin virðist ekki, með því að hætta við sölu, treysta sjálfri sér til að fara með frekari sölu á hlut ríkisins í bankakerfinu, hún treystir sér ekki til þess. Þetta er sjálfsvantraust að mínu mati, eins og ég hef m.a. skrifað um, sögulegt að vissu leyti að ríkisstjórnin og fjármálaráðherra skuli ekki treysta sjálfum sér. Svo heyri ég hér fyrr í dag af hálfu ráðherra að það eigi nú að halda áfram með þetta. Ég vona að það verði haldið áfram en það eru ákveðnir hlutir sem þurfa að komast á hreint. Það þarf að byggja upp traust í samfélaginu. Við þurfum að hafa almenning með okkur í þessa ferð og það er búið að eyðileggja það að ákveðnu leyti.

Í fyrrnefndri yfirlýsingu frá ríkisstjórninni segir líka: „Þegar ný löggjöf liggur fyrir mun ákvörðun um mögulega sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka …“ Ný löggjöf verður ekki tilbúin fyrr en einhvern tíma á næsta ári, árið 2023. Við vitum að það tekur alla vega þann tíma og þá mögulega og hugsanlega getur komið til sölu. Það er alveg með ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn, sem einhvern tíma var til hægri, skuli klúðra þessu máli okkar fólks, frjálslynds hægri fólks, okkar sem teljum mikilvægt að ríkið sé ekki að vasast um allt í bankastarfsemi. Viðreisn hefur sagt það alveg skýrt: Við styðjum sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Við höfum gert það. Við styðjum það með almannahagsmuni, gegnsæi og skýrt ferli í huga. Við styðjum það að ríkið eigi áfram kjölfestu í Landsbankanum. Við gerum það. En þessu máli eru ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkurinn skuldlaust búin að klúðra og það er sárt fyrir okkur sem viljum sjá breytingar á þessu. Við horfum upp á sjálfsvantraust í þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að þetta mál þarf að rannsaka í þaula. Það þarf að velta við hverjum steini. Málið er svo stórt og mikilvægt að það er eðlileg krafa. En ríkisstjórnin virðist ekki taka undir þessi sjónarmið og tekur lítið sem ekkert tillit til annarra sjónarmiða, alveg sama hversu mikil og hversu rökræn og réttmæt gagnrýnin er. Við í stjórnarandstöðunni höfum verið að kalla eftir sérstakri rannsóknarnefnd en ríkisstjórnin hefur, eins og við þekkjum, náttúrlega neitað því og bendir á Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið. Gott og vel. Hún vill bíða eftir niðurstöðum úr rannsóknum þeirra á málinu. En þrátt fyrir það, eins og bent hefur verið á hér áðan og hv. þm. Sigmar Guðmundsson sagði svo réttilega, er ekki hægt að bíða með það að taka Bankasýsluna af lífi og reyna að henda henni fyrir vagninn. Það er ekki hægt að bíða eftir því. Það er ekki mikill manndómsbragur á þessu hegðunarmynstri ríkisstjórnarinnar síðustu daga og vikur.

Ákallið um rannsókn sérstakrar nefndar hefur líka komið utan úr samfélaginu, frá almenningi og óháðum sérfræðingum. Við sjáum mjög skýrt mikla andstöðu og óánægju almennings sem kallar eftir skýrari svörum og auknu gagnsæi og það er skiljanlegt í ljósi sögunnar. Það er ekki hægt að horfa fram hjá eða að hlusta ekki á þessa kröfu því að slík rannsókn væri mikilvægur og dýrmætur liður í því að endurheimta það traust sem hefur glatast. Og það var ekkert endilega mjög mikið fyrir, því miður.

Mér finnst það þakkarefni að ákveðnir stjórnarþingmenn hafa komið hingað í dag og reynt af einlægni að nálgast málið. Við sjáum það að þeir ganga fram fyrir skjöldu og taka undir þessa gagnrýni. Við eigum eftir að fá það staðfest hvort hæstv. ráðherra menningar, ferðamála og viðskipta hafi sett fram þessa gagnrýni en ef hún hefur gert það þá er það vel. En hver var umræðan? Hvernig afgreiddi ríkisstjórnin þetta? Eitthvað annað en einhver önugheit um að það hafi ekki verið gerðar einhverjar bókanir. Hvaða umræða átti sér stað innan Framsóknarflokksins um þetta fyrst þetta kemur frá forystu flokksins? Við heyrum hér hv. þingmenn Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Bryndísi Haraldsdóttur og fleiri viðra áhyggjur sínar og mér finnst það gott, mér finnst það heilbrigt. Fólk á ekki að vera feimið við það. Við sjáum líka fyrrverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins eins og Pál Magnússon draga fram athyglisverða punkta. Þetta er nauðsynlegt fyrir heilbrigða umræðu og til að undirbyggja frekara traust á fjármálakerfinu og við þurfum á því að halda. En hljóð og mynd fer ekki saman hjá ríkisstjórninni og það hefur ekki verið þannig frá upphafi. Salan var fyrst sögð heppnast mjög vel, bara svona ljómandi, en núna er tekin skörp beygja frá fyrri afstöðu. Kannski breyttist það reyndar aftur í gær í Sprengisandi, þá var allt orðið svo frábært aftur. En það er ljóst að stefnuleysið er algjört. Viðbrögðin eru að mínu mati ómarkviss og skilaboðin eru óskýr, einkennast af einhverri taugaveiklun á stjórnarheimilinu, allt til þess að forðast ábyrgð, plástra sárið og færa athyglina frá sér sjálfum og fyrir utan það auðvitað að hengja bakara fyrir smið með því að leggja niður Bankasýsluna.

Mig langar mjög mikið að fara yfir eitt atriði, ég mun örugglega koma hingað upp aftur og fara yfir það, kannski finnst fólki það aukaatriði en það er er risaatriði í hugum okkar í Viðreisn og það er samkeppni. Það er í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjunum að ríkisstjórninni eða okkur ber skylda til þess að huga að samkeppni þegar við erum að selja þessa hluti. En aldrei hef ég heyrt ráðherra fjármála eða aðra ráðherra tala um samkeppni. Fákeppni er mesti óvinur almennings þegar kemur að fjármálamarkaðnum. Ísland er með dýrustu bankaþjónustu í heimi og við notum ekki einu sinni tækifærið og ræðum um samkeppni og tökum fram stóru myndina þegar kemur að sölu á hlut ríkisins á fjármálamarkaði. Já, ég get alveg bent á krónuna, það á ekki að koma neinum á óvart að ég bendi á gjaldmiðilinn. En þetta er stóra myndin, hvort sem við ræðum um gjaldmiðil eða aðra þætti sem eru nauðsynlegir til að koma í veg fyrir þessa fákeppni sem er á markaði, fákeppni sem leiðir til þess að lítil fyrirtæki, meðalstór fyrirtæki, almenningur, fjölskyldur á Íslandi, borga miklu hærri fjármagnskostnað en þekkist annars staðar. Það er líka þungt að sjá að þetta tækifæri er einmitt ekki notað til að ýta undir þetta. Eignarhaldið skiptir máli. En það eitt og sér ræður ekki öllu. Við þurfum að byggja undir með ákveðnum reglum hvernig við ýtum enn frekar undir samkeppni og Samkeppniseftirlitið hefur einmitt bent á það sérstaklega, við undirbúning ákvörðunar um þessa sölu, hversu mikilvægt væri að áhrif sölunnar á samkeppnisumhverfið yrðu metin og greind í þaula. Það er hvergi fjallað um samkeppnismál í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra um söluna. Það segir rosalega mikið um þetta viðhorf stjórnarflokkanna til samkeppni á Íslandi til þess að undirbúa betri stöðu almennings, betri stöðu fyrirtækja, auka lífsgæði fólks. Það er eins og það tengist ekki í kollinum á ráðherrum ríkisstjórnarinnar að samkeppni geti verið grundvöllur og aflvaki til aukinna lífsgæða fyrir fólkið í landinu. Þetta stóra tækifæri varðandi bankasöluna var ekki nýtt fyrir utan að við eigum að skipta um gjaldmiðil.

Eðlilega vakna upp áhyggjur um framhaldið. Hvað verður? Mig langar aðeins að snerta á því, en ég sé að tíminn er að renna út. Mér finnst ótrúlega furðulegt að horfa upp á það, horfa upp á þetta reynda fólk sem fer fyrir ríkisstjórninni, þetta ágæta fólk sem fer fyrir ríkisstjórninni og hefur þessa fjölbreyttu reynslu, að þau skuli ekki standa hér og axla ábyrgð. Er ég að kalla eftir afsögn? Ekkert endilega. Ég vil bara að þau viðurkenni þessi mistök sem voru gerð. Það er ekki hægt að spyrja sig öðru en því: Var verið að villa um fyrir Alþingi þegar áformin voru kynnt? Var verið að villa um fyrir Alþingi? Hvar breyttist þetta allt í ferlinu? Hvenær breyttist það úr því að vera með fáa en stóra fjárfesta sem hefðu hug á því og löngun og metnað til að vera langtímafjárfestar í bankakerfinu en ekki að taka bara einhverjar skortstöður og snúning til að græða einhverjar milljónir og jafnvel tugi milljóna? Hugsunin með þessu skrefi var að fá ábyrga aðila, fagfjárfesta, til að fjárfesta í bankakerfinu. Nei, að því var ekki hugað. Það breyttist eitthvað í ferlinu öllu. Á því ber ríkisstjórnin ábyrgð. Ráðherra þessa málaflokks ber þá ábyrgð. Hann getur ekki skotið sér undan rannsóknarreglu. Átti hann að fara yfir allan listann? Það getur vel verið. Ég er frekar á því að hann hafi átt að spyrja spurninga í samræmi við sitt hlutverk, stjórnsýslulega hlutverk, um það hvort það væru einhverjir vankantar á þessu, hvort það væri vanhæfni hugsanlega á ferð. Er verið að virkja vanhæfisreglur stjórnsýslulaga þær? Af hverju voru þessar spurningar ekki settar fram? Hann ber ábyrgð á því. Hann væri maður að meiri ef hann kæmi hingað og viðurkenndi þá ábyrgð. Þetta er risastórt mál, framtíðarmál fyrir okkur að byggja undir traust á bankakerfinu. Það er ekki að ástæðulausu. Við höfum þann lærdóm og sama hversu sár, hversu erfiður sem hann er fyrir okkur þá er hann óumflýjanlegur. (Forseti hringir.) Við verðum að læra af því sem gerðist í tengslum við efnahagshrunið og ef við erum ekki enn þá búin að gera það þá er lengra í land heldur en ég hélt að væri. (Forseti hringir.) Við verðum að byggja undir traust og þess vegna verðum við að setja af stað rannsóknarnefnd sem veltir við öllum steinum.