Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:54]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að umræðan undanfarna daga, alla vega sú sem ég hef tekið þátt í, og ekki síst framganga hv. formanns fjárlaganefndar og allrar nefndarinnar í þeim efnum, hafi einmitt ágætlega dregið það fram að við viljum spyrja spurninga. Ég var hins vegar aðeins að ávarpa það að mér fyndist — ég hef ekki alveg áttað mig á þessari umræðu hér í dag. Ég hefði gjarnan viljað taka þessa umræðu eftir að við værum búin að fá Bankasýsluna með sín ítarlegu svör sem þau boða við þeim spurningum sem lagðar hafa verið fram á vettvangi fjárlaganefndar. Ég held að það hefði bætt umræðuna verulega.

Við viljum engu að síður bara minna á það, af því hv. þingmaður las hér upp úr fréttatilkynningu Bankasýslunnar, að Bankasýslan sjálf hefur núna beint til Fjármálaeftirlitsins skoðun á ákveðnum þáttum. Það er því ekki eins og við séum ein ósátt við ýmsa hluti í þessari framkvæmd. En stóra myndin er þessi: (Forseti hringir.) Við höfum náð þeim áfanga að selja fyrir 108 milljarða. (Forseti hringir.) Við eigum enn þá verðmætan eignarhlut í bankanum sem ég vonast til, og það erum við hv. þingmaður sammála um, (Forseti hringir.) að við ljúkum sölu á á þessu kjörtímabili.