Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:57]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum ekki enn fengið upplýsingar, t.d. um hlutverk minni kaupenda. Fréttir eru sagðar af því, við erum enn bara að áætla út frá fréttaflutningi, frá því var sagt í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum, að stórir lífeyrissjóðir hafi ekki viljað greiða nema 112 og þess vegna hafi minni fjárfestar verið mikilvægir til að hífa upp söluverðið. Við vitum þetta ekki, hv. þingmaður, því að við höfum ekki fengið nægjanleg gögn til að áætla þetta út frá, en þetta er í það minnsta fréttaflutningur af þessu máli.

Hitt atriðið varðar erlendu sjóðina. Í tilkynningu Bankasýslunnar um hluthafahópinn höfum við ekki upplýsingar um það hverjir stöldruðu við í skamma stund en ég ítreka, eins og ég sagði í ræðu minni, að við vorum ekki með nein sérstök ákvæði um að halda eignarhlutum sem keyptir voru í þessu útboði í einhvern tiltekinn tíma.