Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:01]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu. Hann lagði áherslu á að vera ekki að fella þunga dóma fyrir fram en í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 19. apríl er beinlínis fullyrt að komið hafi í ljós annmarkar við undirbúning og framkvæmd sölu á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég hef verið að reyna að átta mig á því hvaða annmarkar þetta eru nákvæmlega sem ríkisstjórnin vill meina að hafi verið þarna og sé beinlínis búið að staðfesta að hafi verið á ferlinu. Þá er talað um skort á upplýsingagjöf og skort á gagnsæi. Mig langar að spyrja hv. þingmann um hvaða annmarkar hann telji að hafi verið á ferlinu og hvort hann telji að Alþingi hafi með einhverjum hætti verið snuðað um nauðsynlegar upplýsingar og hvort hann sé óánægður með þær kynningar sem fjárlaganefnd fékk og ef ekki, hvar hann telji þá pottinn brotinn og hvaða annmarkar séu varðandi gagnsæi og upplýsingagjöf.