Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:04]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn við þennan málflutning er sá að það er bara ofboðslega skýrt í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum að aðkoma Alþingis að þessu ferli og þær grundvallarupplýsingar sem Alþingi á að fá áður en ráðherra tekur ákvörðun um sölu þær fara fram í gegnum ráðherra og ráðuneytið. Svo eru samskiptin við Bankasýsluna svona meira tilfallandi. Það er ráðherra sem á að leggja fram mjög heildstæða greinargerð um ráðgerða sölumeðferð — þetta kemur skýrt fram í 2. gr. laganna — og leggja fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Það eru sérstakar skyldur sem ráðherra hefur á sínum herðum um það hvaða upplýsingar eiga að koma fram í greinargerðinni. Þetta eru allt saman atriði sem ráðherra ber höfuðábyrgð á en ekki Bankasýslan. Ef það voru þarna (Forseti hringir.) einhver vanhöld á upplýsingagjöf til þingsins þá skil ég ekki hvernig er hægt að firra ráðherra (Forseti hringir.) ábyrgð á því og varpa þeirri ábyrgð yfir á Bankasýsluna eins og forsætisráðherra hefur sérstaklega gert.