Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:07]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um hagnaðinn sem hann nefndi í ræðunni. Hér er verið að selja banka í samkeppnisleysi. Hagnaður Íslandsbanka árið 2020 var 6,7 milljarðar. Hagnaður Íslandsbanka í fyrra var 23,7 milljarðar. Það liggur fyrir og hefur komið fram, m.a. hjá Gylfa Zoëga prófessor, að hann telji að samkeppnisumhverfi bankanna sé þannig að Samkeppniseftirlitið ætti að hefja rannsókn á þessu samkeppnisumhverfi líkt og það gerði varðandi olíufélögin. Listi yfir þjónustugjöld er óljós, framsetning verðskrár banka er flókin og óskýr þannig að neytendur geta ekki borið saman verðskrár. Vaxtamunur er allt of mikill. Ekki er unnt að nota ódýr greiðslukort á Íslandi. Það er þetta sem stendur á bak við hagnaðinn. Þetta er hagnaður sem er ekki í samkeppnisumhverfi og mig langar að spyrja hv. þingmann: Nú er verið að selja bankann í samkeppnisleysi og telur hann að stefnuleysi ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda, (Forseti hringir.) að selja hann þannig að það er gefin sjálftaka á hagnaðinn — að þá muni samkeppni bara allt í einu aukast með því að þetta verði einkavætt? (Forseti hringir.) Heldur hann að einkaaðilar fari að haga sér öðruvísi en olíufélögin gera?