Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:23]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég kem hér upp til að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir sína ræðu. Hann ræddi um upphæðina, söluþóknunina, 700 milljónirnar sem þau fengu sem fengu það verkefni að selja hluti okkar, ríkiseign okkar. Mig langaði af því tilefni að koma hér upp og segja frá því að í morgun á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vorum við að ræða um skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi og fara þar yfir útgjöld m.a. vegna hennar og þeirrar mikilvægu þjónustu. Þar hnaut ég um tölu, 696 millj. kr., sem er sá heildarkostnaður sem ríkið greiddi fyrir annars stigs geðheilbrigðisþjónustu árið 2021. Það eru samningarnir sem Sjúkratryggingar Íslands gera við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttir, sálfræðinga, geðlækna og aðra. Ég spurði sérstaklega út í það af því að það er stundum þannig að þegar maður hefur svona nærtækan samanburð vill maður ekki trúa sínum eigin augum. En það er þannig að söluaðilar eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka fengu meira greitt fyrir þessa sölu sem var kannski einhverrra daga vinna en ríkið varði til að kaupa nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu af sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttum árið 2021.