Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er nefnilega líka eitt af því sem við ættum að gera, að aðskilja fjármálin frá viðskiptabönkunum. (Gripið fram í.) Þá tökum við áhættuna og förum með hana annað. Þá er áhættan ekki hjá almenningi. Ég heyrði í dag að það væru um 50 milljónir manna í Þýskalandi í samfélagsbanka og að sá samfélagsbanki hefði verið starfandi frá 1800 eða 1700 og eitthvað. Hvað segir það okkur? Hver er kennitalan á síðasta banka á Íslandi? (Gripið fram í.) Þetta ætti líka að segja okkur það að við erum ekki tilbúnir að selja bankana. Við erum ekki búnir að gera upp gamla bankahrunið. Við erum ekki búnir að taka ákvörðun um hvort eigi að skilja fjármálastarfsemina frá þessu. Við getum rætt um samfélagsbanka og að vísu voru sparisjóðirnir að ákveðnu leyti samfélagsbankar á sínum tíma. Við vitum hvernig fór með þá. Þar var grafið undan um leið og, hvað má segja, þessir svokölluðu fjárfestar, eða ég veit ekki hvað á að kalla þessa einstaklinga sem sigldu bönkunum í strand, um leið og þeir komast inn í bankana og vita af því að einhvers staðar er fé án hirðis, eins og Pétur Blöndal heitinn kallaði þetta. Það var á nokkrum stöðum í sparisjóðunum, í tryggingafélögunum og bótasjóðum og þetta var aðalbitbeinið. Við vitum líka hvað varð um t.d. bótasjóði Sjóvár sem hvarf til Tortóla, Cayman, endaði í lúxusíbúð í Kína og svo veð í sundlauginni á Álftanesi. Það er margt að hræðast. En ég held að þetta sé einmitt sú umræða sem við þyrftum að taka áður en við seljum bankana.