Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:00]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og hlustaði einmitt á hann tala fyrr í dag um þessa spurningu, um hvað tekur við þegar ríkisstjórnin, eða þau þrjú í ríkisstjórninni sem sendu út fréttatilkynninguna, hefur lagt niður ríkisstofnun sem heldur á um 400 milljörðum kr. Mér finnst mjög merkilegt að heyra hv. þingmann vísa í lög um Stjórnarráðið, 6. gr., því að þegar maður skoðar hana þá blasir við í upptalningunni að þau tvö atriði sem kalla á að það eigi, það verði, það skuli halda ríkisstjórnarfund eru nýmæli í lögum annars vegar og mikilvæg stjórnarmálefni hins vegar, hvort tveggja á við. Þetta er því í mínum huga skýrt brot á þessum lögum. Hér hefði átt að halda ríkisstjórnarfund vegna þess að það þarf að leggja fram stjórnarfrumvarp til að leggja þessa stofnun af og það held ég að hljóti að leiða af eðli máls að þegar við erum að ræða um stofnun sem heldur á 400 milljörðum kr. sé um mikilvægt stjórnarmálefni að ræða. En ég myndi vilja spyrja hv. þingmann hvað tekur við. Miðað við eðlilegan framgang frumvarps mætti gera ráð fyrir því að það sé kannski í fyrsta lagi á næsta ári sem þessi lagabreyting kæmi til framkvæmda. Maður veltir fyrir sér hvað ríkisstjórnin sér fyrir sér í þeim efnum. Eiga stjórnin og forstjóri, með allt það vantraust sem við blasir, að sitja þangað til? Felst mögulega í þessu krafa af hálfu hæstv. ráðherra um að þessir aðilar segi af sér og nýir verði skipaðir þar til eitthvað fer að teiknast upp um það hvað verður? Er hægt að fá sterkari vantraustsyfirlýsingu en við blasir í þessari stöðu?