Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ágæta spurning undirstrikar það hvers konar flumbrugangur þetta hefur allt saman verið. Þessi ákvörðun er augljóslega ekki tekin á grundvelli umræðu í ríkisstjórn, hvað þá í þingflokkum stjórnarflokkanna, enda kannski ekki mikil hefð fyrir því hjá þessari stjórn að ræða við þá fyrr en hlutir eru orðnir. Menn hafa ekki einu sinni leitt hugann að því hvernig þetta millibilsástand yrði. Látum vera að þau hafi ekki vitað hvað ætti að taka við. Ég held að það sé rétt, sem hv. þingmaður segir, að þetta verði aldrei klárað fyrr en einhvern tímann á næsta ári. Óhjákvæmilega skapast þá óvissa og auðvitað hlýtur það að vera hálfvonlaus staða fyrir starfsmenn og stjórn Bankasýslunnar að hafa þetta yfir sér í ár, hafandi fengið tilkynningu um að starfsemin verði lögð niður, hafandi engar heimildir til að sinna hlutverki sínu, hafandi fengið staðfestingu á því að ekki verði um frekari sölu á hlut ríkisins að ræða, væntanlega ekki á þessu kjörtímabili a.m.k. — í hvaða stöðu er Bankasýslan sett í millitíðinni? Í afleita stöðu. Það er ágætt að hv. þingmaður dragi þetta fram. En um leið er þetta enn ein vísbendingin um að þessi ákvörðun hafi fyrst og fremst verið tekin, hvort sem það var með SMS-um eða símtölum um páskana, til þess að reyna að kasta einhverju fram, til að slá á umræðuna, frekar en sem liður í einhverjum áformum.