152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér munnlega skýrslu sem hæstv. fjármálaráðherra flutti fyrr í dag, um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Það er alltaf viðkvæmt og vandmeðfarið þegar samfélagslegar eigur eru seldar. Þess vegna er mikilvægt að traust ríki hvað varðar slíkt söluferli. Það er alveg ljóst að það traust hefur brostið, annars værum við ekki hér að ræða þetta. Í mínum huga, og okkar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, er útilokað annað en að farið verði yfir það hvernig þessari sölu var háttað. Eitt af því sem ég tel að þurfi að skoða er gagnsæi og upplýsingagjöf. Reyndar hefur verið brugðist við réttmætri gagnrýni sem kom fram strax í upphafi þegar ekki átti að birta kaupendalistann. Hann hefur nú verið birtur að frumkvæði stjórnvalda og það réttilega, enda á almenningur rétt á slíkum upplýsingum þegar kemur að sölu á ríkiseigum. En vegna þess að gagnsæi og upplýsingagjöf er mikilvæg finnst mér mikilvægt að halda áfram að skoða þetta og fara yfir málið. Við hér á Alþingi eigum að halda því sérstaklega til haga og leita upplýsinga.

Ég tel líka mikilvægt að svara verði leitað við þeirri spurningu hvort kröfur um heilbrigða viðskiptahætti hafi verið uppfylltar. Það er ýmislegt sem ég tel orka tvímælis og hæstv. fjármálaráðherra kom líka inn á það í framsögu sinni hér í dag, t.d. þátttaka söluráðgjafanna í þessu ferli. Þetta er Seðlabankinn að skoða og ég tel mjög mikilvægt að fá svör við því og yfirferð á því hvort rétt hafi verið staðið að málum. Sama gegnir um spurningar um það að aðilar sem tóku þátt í þessum kaupum hafi allir verið hæfir. Ég veit það ekki, ég er ekki sérfræðingur í þessum málefnum, en tel mikilvægt að farið verði sérstaklega yfir það og að við fjöllum svo um það þegar Seðlabankinn verður búinn að skila af sér svörum.

Fjármálaeftirlit Seðlabankans og Ríkisendurskoðun, sem er algerlega sjálfstæð í vinnu sinni, hafa nú þegar hafið athugun á málinu og mér finnst mikilvægt að sú athugun sé í gangi hjá þessum aðilum en niðurstöðurnar eiga að liggja fyrir í júní. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við verðum búin að fá þær niðurstöður áður en þing fer heim. Að þeirri rannsókn lokinni verður svo hægt að leggja mat á það hvort stofna beri sérstaka rannsóknarnefnd um málið til að upplýsa það enn frekar ef eitthvað stendur út af.

Ég bind vonir við að rannsókn Fjármálaeftirlits Seðlabankans og Ríkisendurskoðunar dugi til en ég ætla ekkert að gefa mér fyrir fram um það hvað kemur út úr þeirri vinnu. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól að ég tel mikilvægt að ef við teljum að fleiri spurningum sé ósvarað verði leitað svara við þeim.

Að lokum þá vil ég segja að mér líst vel á það sem komið hefur fram um að ríkisstjórnin hafi ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og innleitt verði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það tengist því sem ég sagði hér í upphafi um að það er alltaf viðkvæmt og vandmeðfarið þegar verið er að selja samfélagslegar eigur. Því kerfi sem við höfum núna, með lögum um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og með Bankasýslunni, var komið á af biturri og vondri reynslu sem við erum brennd af sem þjóð. Ég var bjartsýn og vongóð um að nú værum við með kerfi sem myndi hjálpa okkur í þeirri vegferð að selja ríkiseigur. En það hafa komið fram það sterkar vísbendingar um brotalamir á því kerfi, að ekki sé talað um óánægju almennings með það hvernig til tókst, að mér líst vel á þessa tillögu. Ég tel einmitt mjög mikilvægt að um þetta verði rækilega fjallað hér á Alþingi því að það erum við sem berum hina pólitísku ábyrgð á því hvernig farið er með eigur ríkisins.

Að þessu öllu sögðu þá bind ég vonir við þær rannsóknir sem nú eru í gangi á þessu ferli og ég ætla ekkert að gefa mér um niðurstöðurnar. Ég veit hvaða spurningar ég hef og þeim hef ég varpað fram hér. Ég tel einboðið að við þurfum sem þjóðþing að halda áfram að takast á við þetta mál. Það er eitt af því sem samfélagslega kjörnir fulltrúar eiga að gera þjóð sinni til heilla því að þessi mál þurfa að vera í lagi.