Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:36]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég var að reyna að koma þessu áleiðis: Jú, vissulega er það ágætisákvörðun að listinn hafi verið birtur. En það er ekki þannig að halda þurfi því sérstaklega til haga og skreyta sig með því eins og það sé einhver dyggð. Það liggur í hlutarins eðli að fjármálaráðuneytið hefði aldrei getað tekið aðra ákvörðun, hvort sem forsætisráðherra hafði þar einhver ítök í eða ekki, en þá að birta listann. Ég hjó eftir því, í viðtali við stjórnarformann Bankasýslunnar, að hann var eiginlega svolítið hneykslaður á því að til stæði að birta þennan lista. Hann sagði eitthvað í þessa áttina: Ef menn hafa áhuga á því í næsta útboði að gera eitthvað slíkt þá þyrftu að koma fram sérstakir skilmálar um það. Við erum búin að selja helminginn af Íslandsbanka og ætluðum að selja restina síðar á kjörtímabilinu, við erum komin svo langt í þessu ferli, og við erum enn að sníða agnúa af sem einhvern tímann hefði þótt sjálfsagt að hafa í fyrirrúmi. Þingmaðurinn hlýtur að geta verið sammála mér um að þetta ber þess merki að það hefur verið svolítill flumbrugangur í kringum þessa sölu hingað til.