Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst þetta nefnilega vera lykilatriði hvað rannsóknarnefndina varðar. Ef Ríkisendurskoðun skilar því að þetta sé í fínu lagi þá erum við samt engu nær. Við vitum það af fyrri reynslu af því að skoða svona hluti. Ef aðstæðurnar eru öðruvísi og Ríkisendurskoðun hefur aðgang að upplýsingum sem veita okkur innsýn í ákveðin atriði sem fóru úrskeiðis þá er niðurstaðan samt óhjákvæmilega að það þarf að kalla saman rannsóknarnefnd. Við vitum að Ríkisendurskoðun nær ekki öllum út af fyrri reynslu. Sama hvað Ríkisendurskoðun gerir, sama hvaða niðurstöðu Ríkisendurskoðun skilar, afurðin úr því frá þinginu verður að vera rannsóknarnefnd. Það er óhjákvæmilegt.

Hitt sem er alltaf verið að klifa á hérna er þetta: Ráðherra á ekki að meta einstaka tilboð. Ég klóra mér dálítið í hausnum yfir því. Að sjálfsögðu er það ekki ráðherra prívat og persónulega sem tekur upp rauða yfirstrikunarpennann og strokar yfir þetta tilboðið og hitt tilboðið o.s.frv. og skrifar á spássíuna ástæður á faglegum nótum. Það er fagleg stjórnsýsla á hans vegum sem sér að sjálfsögðu um þá framkvæmd, framkvæmd sem hann ber ábyrgð á. Þar af leiðandi, ef ráðherra lætur það verk kyrrt er hann sekur um ákveðna vanrækslu. Það er það sem lögin gera ráð fyrir; Bankasýslan sér um framkvæmdina, skilar framkvæmdinni til ráðherra sem fer og vottar að það sé allt vel gert, ekki hann prívat og persónulega heldur stjórnsýsla hans sem hann ber ábyrgð á.

Mig langaði til að velta því fyrir mér með (Forseti hringir.) hv. þingmanni hvort við séum ekki að verða vitni að smáþvælu í umræðunni frá hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) sem er alltaf að varpa sinni persónu inn í þetta, eins og hann ætti að gera eitthvað prívat og persónulega, sem er bara þvæla.