Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, auðvitað hefur maður heyrt hæstv. fjármálaráðherra taka til varna og þó það nú væri. En það hefur vakið meiri eftirtekt hjá mér að stjórnarliðar hinna ríkisstjórnarflokkanna hafa eiginlega gengið enn lengra til að verja hann og haldið því fram að hann ætti bara hreinlega ekki að koma neitt að þessu. En hann kemur að þessu, hann fær niðurstöðuna inn á sitt borð með einhverjum upplýsingum sem geta alveg vakið upp spurningar. Bankasýslan hefur væntanlega séð nöfnin og gefur svo einhverjar upplýsingar til ráðherra. Ég er ekkert að halda því fram að hæstv. fjármálaráðherra eigi endilega að fara yfir hverja einustu kennitölu og leggjast yfir það. En hann sér fjöldann. (Gripið fram í.) — Já. Hann gæti spurt: Hvernig stóðu söluaðilar að sölunni? Eru einhverjir af söluaðilunum sjálfir að kaupa? Það eru ýmsar spurningar sem honum ber að spyrja Bankasýsluna áður en hann skrifar undir. Ég er orðinn það gamall að ég þekki þá tíð þegar maður skrifaði undir víxla og maður kannaði svona lágmarksbakgrunn fólksins sem maður var að skrifa upp á hjá þó að maður hafi kannski stundum farið fullgáleysislega að því. En hér erum við að tala um heldur stærri upphæðir en að bjarga sér frá mánuði til mánaðar. Ég tel því alveg einboðið að ekki sé hægt að fría ráðherra algerlega frá þessu. Ef hans hlutverk er ekkert annað en að skrifa nafnið sitt þá er eins gott að strika það út og sleppa því vegna þess að það felst þá ekkert í því. (Gripið fram í.) Hann er þá kominn í sama hlutverk og forseti Íslands og það er hann ekki.