Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég myndi vilja bæta einu við í röksemdafærslu hv. þingmanns. Það er að sjálfsögðu möguleiki að Bankasýslan hafi einfaldlega ekki verið að segja satt um samráðið við stjórnvöld, sem er að sjálfsögðu alvarlegt út af fyrir sig. Það beinir sjónum enn frekar að hlutverki ráðherra, ástæðu þess að um er að ræða tvöfalt stjórnsýslufyrirkomulag þar sem Bankasýslan sér um að fylgja framkvæmd samkvæmt leiðbeiningum ráðherra og ráðherra vottar svo að Bankasýslan hafi farið eftir leiðbeiningunum. Hann er þá ekki að meta eigin verk og er ekki eins hlutdrægur gagnvart þeim. Þegar Bankasýslan segir okkur að stjórnvöld hafi allan tímann vitað hvað hún var að gera þá eru tveir möguleikar. Það getur verið satt og þá er allt alveg samkvæmt því sem hv. þingmaður er að segja. Það getur líka verið að það sé ekki satt, sem er þá mjög ámælisvert. En það fríar ekkert ráðherrann. Ráðherrann hefði átt að sjá að Bankasýslan fór ekki eftir fyrirmælum og sýndi ekki allar upplýsingar ef hann hefði sinnt sínum hluta, ráðherraábyrgðinni, og vaktað það að farið hefði verið rétt að málum. Til að fylla upp í þessa mynd og útskýra þetta kannski aðeins betur þá sé ég ráðherra varpa öllu yfir á Bankasýsluna, allir aðrir eru að misskilja allt. Það sem hv. þingmaður bendir á er einmitt dálítið lykilatriði í því að átta sig á því að ábyrgðin er einmitt hjá ráðherra. Ástæðan fyrir því að Bankasýslan segist hafa upplýst ráðherra um allt allan tímann er sú að ráðherra ber ábyrgð.