Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[01:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það vera aðalatriðið að við fáum það alveg á hreint hvaða samtal átti sér stað. Við skulum ekki gleyma því að fjárlaganefnd, líkt og formaður hv. fjárlaganefndar skýrði svo ágætlega hér í dag, stóð í þeirri meiningu, eftir kynningu frá Bankasýslunni og greinargerð ráðherra, að verið væri að leita að langtímafjárfestum, stórum fjárfestum, helst með góða reynslu af rekstri banka sem væru þess megnugir að standa að baki bankanum á erfiðum tímum en væru ekki bara að stökkva inn í nokkra daga til þess að taka út einhvern gróða. Enda var okkur sagt að afslátturinn væri til þess að fá þessa góðu fjárfesta að borðinu. Þess vegna átti að veita afslátt. Þess vegna verður maður svo rasandi að horfa á listann og horfa á upphæðirnar sem menn fengu til að setja inn í þetta útboð. Lægsta tilboðið er rétt rúmlega milljón og það setur þetta allt í allt annað samhengi. Ábyrgðin er hjá ráðherrunum vegna þess að lögin segja að ráðherra eigi að fara yfir hvert skref. Ef hann hefur ekki gert það þá er það vanræksla og ef hann hefur verið bakkaður upp af forsætisráðherra í ráðherranefnd um efnahagsstjórn um þetta mál þá þarf það sannarlega allt saman að koma í ljós og ég vona að það geri það í umræðunni á morgun.