Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[01:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég gleymdi reyndar að minnast á eitt sem mér finnst líka augljós annmarki og það er að heyra af því að söluaðilar hafi sjálfir verið að kaupa og innherjar. Það finnst mér líka hljóma sem augljós annmarki sem þurfi að fara yfir. Ég er reyndar á þeirri skoðun að birting listans skipti líka alveg gríðarlega miklu máli því að hluti af þessu er einmitt um traustið, trúverðugleikann, gagnsæið í ferlinu. Þá finnst mér alveg borðleggjandi, og hafa verið allan daginn, alltaf, að listi yfir þá sem keyptu í þessu útboði væri birtur. Mér finnst það hluti af annmörkunum. Ég hef skilið málið þannig að það sé í raun Bankasýslan sem leggur til við ráðherra að fara í söluna og leggur þessa aðferð til. Hæstv. ráðherra skrifar greinargerð sem byggir að mestu leyti á rökum Bankasýslunnar þannig að ég vil fyrst taka samtalið við Bankasýsluna um þetta varðandi lágmarksfjárhæðina. Eins og ég sagði áðan þá kunna að vera góð og gild rök fyrir því, ég hef bara ekki séð þau. Hv. þingmaður er hér að spyrjast fyrir um ábyrgð ráðherra og ég hef sagt að ráðherra beri ábyrgð á öllu ferlinu (Forseti hringir.) og hann hefur ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð. Þá skulum við líka muna þau markmið sem sett voru fram með sölunni og hvar við stöndum miðað við þau markmið.